Þar er ekkert „við og þau“

Viðhafnarsalur Ráðhúss Óslóar þétt skipaður við friðarverðlaunaathöfnina í dag. Haraldur …
Viðhafnarsalur Ráðhúss Óslóar þétt skipaður við friðarverðlaunaathöfnina í dag. Haraldur konungur og Sonja drottning sitja úti á miðju gólfi ásamt Hákoni og Mette-Marit. Í fremstu röð hægra megin á myndinni situr Erna Solberg forsætisráðherra. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Mikil öryggisgæsla var við Ráðhúsið í Ósló í morgun, vopnuð lögregla fór þar um gangandi og á hestbaki auk þess sem öryggisgirðingar höfðu verið settar upp umhverfis bygginguna vegna afhendingar friðarverðlauna Nóbels sem hófst stundvíslega klukkan 13 að staðartíma.

Fjölmiðlafólki var hleypt inn í bygginguna í fjögurra manna hópum frá klukkan 11 í morgun og gert að afhenda lögreglu allan sinn búnað og annan farangur til athugunar. Þá tók við vopnaleit með málmleitarhliði og að lokum fékk mannskapurinn að nálgast föggur sínar á ný.

Skömmu fyrir klukkan 13 upphófst mikill lúðrablástur og gekk friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2019, Abiy Ahmed Ali, forsætisráðherra Eþíópíu, í viðhafnarsal ráðhússins og með honum norska Nóbelsnefndin með Berit Reiss-Andersen nefndarformann í broddi fylkingar. Þau voru ekki fyrr sest en lúðrar voru þeyttir á ný, í þetta sinn til að fagna komu Haraldar Noregskonungs og Sonju drottningar sem settust í öndvegi fremst í salnum ásamt Hákoni krónprinsi og Mette-Marit krónprinsessu.

Tók við verðlaununum við dynjandi lófatak

Því næst steig Reiss-Andersen í pontu, bauð friðarverðlaunahafann velkominn og gerði grein fyrir vali Nóbelsnefndarinnar þar sem þyngst á metunum vó starf hans að friði í samskiptum nágrannaríkjanna Eþíópíu og Eritreu. Að loknu ávarpi sínu bað nefndarformaðurinn friðarverðlaunahafann að rísa á fætur og veita friðarverðlaunum Nóbels árið 2019 viðtöku við dynjandi lófatak viðstaddra en salurinn var þétt setinn.

Abiy Ahmed Ali, forsætisráðherra Eþíópíu og friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2019 …
Abiy Ahmed Ali, forsætisráðherra Eþíópíu og friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2019 sýnir verðlaunin stoltur við ærandi lófatak. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Að loknum tónlistarflutningi eþíópískra listamanna steig friðarverðlaunahafinn nýkrýndi í ræðustól og hóf ávarp sitt.

„Ég veiti þessum verðlaunum viðtöku fyrir hönd íbúa Eþíópíu og Eritreu, einkum og sér í lagi þeirra sem fórnuðu öllu í nafni friðar,“ hóf ráðherra mál sitt. Rifjaði hann því næst upp herþjónustu sína í stríði nágrannaríkjanna sem braust út árið 1998 þegar hann var rúmlega tvítugur að aldri, en friðarverðlaunahafinn er með yngri forsætisráðherrum, nýorðinn 43 ára.

Sá ljótleika stríðsins með eigin augum

„Ég horfði með eigin augum á ljótleika stríðsins í fremstu víglínu. Þeir eru til sem hafa aldrei séð stríð og upphefja það og dásama. Þeir hinir sömu hafa ekki séð óttann, þeir hafa ekki séð örmögnunina, þeir hafa ekki séð eyðilegginguna og sorgina né hafa þeir skynjað sorglega tómleikatilfinninguna eftir fjöldadrápin. Stríð er helvíti fyrir alla sem að því koma. Það veit ég því ég hef verið þar og ég hef snúið þaðan til baka.“

Gestir rísa úr sætum og konungsfjölskyldan gengur í salinn við …
Gestir rísa úr sætum og konungsfjölskyldan gengur í salinn við lúðraþyt. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Sagði forsætisráðherra frá því þegar hann brá sér augnablik út úr sprengjubyrgi í landamærabænum Badme til að komast í fjarskiptasamband. Hann var aðeins mínútur í burtu en þegar hann sneri aftur fann hann ekki annað en sundurtættar líkamsleifar sveitar sinnar sem hafði þá orðið fyrir skothríð stórskotaliðs fjandmannanna og enginn lifað af. Ali sagði stríð nágrannaríkjanna hafa kostað um hundrað þúsund manns lífið og að innviðir ríkjanna hefðu verið að hruni komnir þegar átökunum lauk í júní 2000.

Við tóku tæpir tveir áratugir af hernaðarlegri spennu milli Eþíópíu og Eritreu og virtist seint ætla að gróa um heilt eftir styrjöldina.

Fórnarlömb sameiginlegs óvinar sem heitir fátækt

„Við skildum að þjóðir okkar eru ekki óvinir. Þess í stað vorum við fórnarlömb sameiginlegs óvinar sem heitir fátækt. Við skildum að á meðan þjóðir okkar sátu fastar í fjötrum gamalla harma tók heimurinn örum breytingum og skildi okkur eftir. [...]

Friðarverðlaunahafinn flytur ávarp sitt þar sem hann rifjaði meðal annars …
Friðarverðlaunahafinn flytur ávarp sitt þar sem hann rifjaði meðal annars upp herþjónustu sína og grimmilega ásjónu styrjalda. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Í dag uppskerum við arðinn af friðarvinnu okkar. Fjölskyldur sem voru sundraðar um tveggja áratuga skeið eru nú sameinaðar. Stjórnmálasamband er á ný komið á milli ríkja okkar. Áhersla okkar nú er að ganga til sameiginlegrar innviðauppbyggingar sem verður hagstefnu okkar lyftistöng. [...] Að fara í stríð krefst ekki margra, en til að byggja upp frið þarf þorp og þjóð.“

Hann ræddi því næst um lífsspeki sína, medemer, sem á amharísku, opinberu tungumáli Eþíópíu, táknar einingu en er um leið eins konar samfélagssáttmáli sem snýst um að nýta það besta úr fortíðinni til að byggja upp nýtt samfélag og nýja menningu umburðarlyndis, skilnings og sátta.

Ekkert „við og þau“

„Í medemer-hugmyndinni er ekkert „við og þau“, þar er eingöngu „við“ og það sem tengir okkur saman er ástin, fyrirgefningin og einingin. [...] Í mörgum Afríkumálum er að finna orðatiltækið „Svo að þú megir eiga friðsama nótt þarf nágranni þinn líka að eiga friðsama nótt.“

Ali ræddi að lokum um það mikla umbótastarf sem unnið hefði verið í nágrannaríkjunum Eþíópíu og Eritreu síðan þjóðirnar friðmæltust og það mikla niðurrif sem áður hefði verið unnið af hatri og blindum hefndarþorsta.

Að bera ekki önnur vopn en snjallsíma til ljósmyndunar gat …
Að bera ekki önnur vopn en snjallsíma til ljósmyndunar gat verið hið vandræðalegasta uppi á fjölmiðlasvölunum, eiginlega bara pínlegt. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég hef loforð að efna áður en ég leggst til svefns. Mín bíður langt ferðalag á friðarveginum,“ sagði ráðherra í lokaorðum sínum og hvatti að lokum alþjóðasamfélagið til að sameinast honum og öðrum Eþíópíubúum við að koma á varanlegum friði og hagsæld á Horni Afríku.

„Ég þakka ykkur!“ voru lokaorð forsætisráðherra Eþíópíu og friðarverðlaunahafa Nóbels árið 2019.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert