Fyrsta smitið í Sviss

Bruce Aylward sýnir þróun kórónuveirunnar á blaðmannafundi í höfuðstöðvum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Bruce Aylward sýnir þróun kórónuveirunnar á blaðmannafundi í höfuðstöðvum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. AFP

Fyrsta kórónuveirusmitið COVID-19 hefur greinst í Sviss. Þetta staðfestir heilbrigðisráðuneytið sem jafnframt tilkynnir um blaðamannafund seinna í dag þar sem farið verður yfir málið. Veiran hefur borist til landa sem umlykja Sviss sem eru Þýskaland, Austurríki, Frakkland og Ítalía.

Tilvikið greindist hjá einstaklingi í hinu ítölskumælandi Ticino-héraði sem liggur að landamærum Ítalíu. Í gær greindu yfirvöld frá því að viðbúnaðarstigið hefði verið hækkað vegna fjölgunar á smituðum einstaklingum á Ítalíu. 

Fram að þessu hafa um 300 einstaklingar verið skimaðir fyrir veirunni en enginn greinst. Nú væru fleiri prófaðir sem hefðu flensulík einkenni. Til greina kemur einnig að herða eftirlit á landamærunum. 

Veiran berst hratt um heiminn og sífellt greinast ný tilvik í hinum ýmsu löndum. Fyrsta smitið greindist á Tenerife í gær þegar ítalskur læknir reyndist vera með veiruna. 

Í Mið-Austurlöndum breiðist hún út. Iraj Haririchi, aðstoðarheilbrigðisráðherra Írans, hefur verið greindur með kórónuveiruna. Hann er í forsvari fyrir þarlend stjórnvöld og hefur greint frá aðgerðum til að hefta útbreiðslu hennar.  

Í gær hélt hann blaðamannafund og þar þótti hann fremur andstuttur og sveittur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert