Heimafólki í Mecklenburg-Vorpommern, einu af sextán ríkjum Þýskalands, er heimilt að ferðast til strandarinnar við Eystrasalt í norðausturhluta landsins til að njóta páskahelgarinnar, þrátt fyrir útgöngubann í landinu. Að þessari niðurstöðu komst héraðsdómstóll í borginni Greifswald.
Útgöngubann er í gildi í Þýskalandi en inntak þess er mismunandi milli ríkja. Í framangreindum dómi sagði að bann stjórnarinnar í Mecklenburg-Vorpommern væri úr hófi og hafa stjórnvöld samþykkt að hlíta niðurstöðunni. Hafa þau þó biðlað til íbúa að halda tveggja metra fjarlægð við aðra.
Einn þeirra sem mæltu gegn banni yfirvalda er lögmaðurinn Jost von Glasenapp, sem sagði það „þýðingarlaust“. Enginn hefði getað útskýrt fyrir honum „hvers vegna hætta á smiti myndi aukast þegar fólk ferðaðist úr yfirfullum borgum til strjálbýllar strandarinnar“.
Þá sagði enn fremur í dóminum að meira pláss yrði í strandbæjunum vegna þess að útlendindar og Þjóðverjar frá öðrum ríkjum en Mecklenburg-Vorpommern gætu ekki ferðast þangað.
Fleiri hafa fengið undanþágu frá ferðatakmörkunum vegna kórónuveirunnar því um þessar mundir streyma þúsundir Rúmena og Pólverja inn í Þýskaland til að hjálpa til við vorverkin, sér í lagi til að starfa við uppskeru í aspas- og jarðarberjaframleiðslu. Vegna kórónuveirunnar er umframeftirspurn eftir vinnuafli á sveitabæjum landsins og því hafa stjórnvöld gefið leyfi fyrir um 80.000 erlendum vinnumönnum inn í landið í apríl og maí. Á venjulegu ári kæmu um 300.000 erlendir vinnumenn inn í landið til að vinna við ávaxta- og grænmetisuppskeru, að því er fram kemur á vef BBC.