Ósló skrúfar frá áfenginu

Við Aker-bryggju í miðbæ Óslóar þar sem mikil mannmergð kemur …
Við Aker-bryggju í miðbæ Óslóar þar sem mikil mannmergð kemur jafnan saman í blíðviðri. Myndin er tekin 6. maí 2017 enda ljóst að ekki er einn metri á milli margra sem þarna njóta sólarinnar. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Mikil stemmning ríkir nú í miðborg Óslóar eftir að leyft var að selja áfengi á sumum öldurhúsum borgarinnar á ný eftir langa þurrð, en borgarráð ákvað að banna alla áfengissölu á veitingastöðum borgarinnar frá klukkan 20:30 laugardagskvöldið 21. mars í tilraun til að hemja útbreiðslu kórónuveirunnar og ræddi Victoria Marie Evensen, borgarfulltrúi Verkamannaflokksins, málið við mbl.is á sínum tíma.

Það var klukkan 14 í dag að norskum tíma, 12 að íslenskum, sem vínveitingahúsin opnuðu á ný og mynduðust víða raðir fyrir utan staði á Aker-bryggju niðri við sjó þar sem enginn hörgull er á knæpum og veitingastöðum almennt. Ekki hafa þó allir staðir opnað enn þar sem eitt af nokkrum skilyrðum fyrir opnun í dag er að staðurinn hafi mat á boðstólum.

„Hér var komin röð áður en við opnuðum,“ segir Geir Johnson, eigandi Parkteatret í Grünerløkka-hverfinu, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í dag, en hjá honum voru það ekki bara viðskiptavinirnir sem streymdu að til að væta kverkarnar því Johnson sat sjálfur með ískaldan bjór við eitt af borðunum úti þegar NRK ræddi við hann. „Maður þarf nú að fá sér einn sjálfur til að fagna því að vertíðin er að hefjast,“ segir hann glaðbeittur og á við sumarvertíð veitingahúsa borgarinnar.

Bræðurnir Markus og Joppe Gjelseth, sem reka nokkra staði við Aker-bryggju, segja opnunina á kórónuveirutímum með undarlegum formerkjum þar sem þeir hittust fyrir við að dusta rykið af bjórdælunum á Lekter'n, einum staða sinna, sem reyndar er bátur eða eins konar prammi við Aker-bryggju.

Lekter'n, ölprammi þeirra bræðra Markus og Joppe Gjelseth. Þeir segjast …
Lekter'n, ölprammi þeirra bræðra Markus og Joppe Gjelseth. Þeir segjast vel treysta sér til að gæta að sóttvarnareglum um borð hjá sér en hafi meiri áhyggjur af röðinni fyrir utan. Þeir þurftu að hella niður 1.000 lítrum af bjór sem var ekki drykkjarhæfur eftir bannvikurnar en segjast eiga nóg til að opna í dag. Myndin er tekin 6. maí 2017. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Við höfum mestar áhyggjur af röðinni fyrir utan staðinn úr því við getum ekki haft nema takmarkaðan fjölda fólks inni á staðnum,“ segir Joppe við NRK og bætir því við að þeir bræður íhugi nú að leigja inn dyraverði frá öryggisfyrirtæki til að passa upp á að fólk gæti að eins metra fjarlægð í röðinni.

Þeir segjast ekki hafa áhyggjur af því að illa gangi að gæta að sóttvarnareglum um borð sem þó eru stífar. Tveir metrar hið minnsta þurfa að vera á milli allra borða og mega ekki fleiri en fimm manns sitja við hvert borð. Fjarlægð milli gesta ætti, sé þess nokkur kostur, að vera minnst einn metri sem er langt í frá venjulegt ástand um borð í Lekter'n svo sem sjá má af myndum með fréttinni.

Lekter'n með ráðhúsið í baksýn. Eins blasir hinn fornfrægi Akershus-kastali …
Lekter'n með ráðhúsið í baksýn. Eins blasir hinn fornfrægi Akershus-kastali handan fjarðarins við af bryggjunni. Myndin er tekin 6. maí 2017. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Þá verða þjónar að þjóna til borðs, og gildir það um áfengi jafnt sem mat, til að draga sem mest úr því að gestir fari inn á barinn og standi þar sem ær við jötu. Lokareglan er svo að áfengissölu beri að hætta klukkan 23:30 og staðurinn skuli vera tómur á miðnætti, en almennt mega veitingastaðir í Noregi hafa opið til klukkan 01:00 á virkum dögum og sumir lengur, hafi þeir sérstakt leyfi til þess.

Til að gæta enn betur að sóttvörnum um borð hafa bræðurnir brugðið á það ráð að setja upp skilrúm úr plexígleri milli allra sófanna á þilfarinu. Þeir segjast hafa átt nógan bjór til að opna í dag þótt eitthvað af honum hafi ekki verið í drykkjarhæfu ástandi eftir áfengisbannið. „Við þurftum að hella úr öðrum þúsund lítra kútnum okkar en hinn var fínn,“ segir Markus.

Einmuna veðurblíða er í Ósló, sól og 17 stiga hiti og spáð eins á morgun svo bjórvertíð veitingahúsa höfuðborgarinnar ætti að hefjast með hvelli eftir kórónuþurrkinn.

NRK

VG

Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert