Fá ekki að minnast blóðsúthellinganna

Fjöldi fólks hefur mótmælt hertu taki kínverskra stjórnvalda á sjálfsstjórnarhéraðinu …
Fjöldi fólks hefur mótmælt hertu taki kínverskra stjórnvalda á sjálfsstjórnarhéraðinu Hong Kong undanfarna daga. AFP

Lögreglan í Hong Kong hefur gefið út að fyrirhuguð minningarathöfn um mótmælin á Torgi hins himneska friðar í Peking árið 1989 verði ekki leyfð í Hong Kong þetta árið. Ástæðan er sögð kórónuveirufaraldurinn, en í synjunarbréfi lögreglu við umleitunum skipuleggjenda segir að samkoman yrði „meiri háttar ógn við öryggi og heilsu almennings“.

Aðeins er rúm vika liðin frá því samþykkt voru á kínverska þinginu ný þjóðaröryggislög um Hong Kong sem kveða á um bann við uppreisnaráróðri, landráði og sjálfstæðisumleitunum héraðsins. Hefur lögunum verið mótmælt harðlega, svo sem af erindrekum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins og hefur því verið haldið fram að þau marki endalok Hong Kong í núverandi mynd.

„Ég sé ekki hvers vegna héraðsstjórnin telur pólitískar samkomur óásættanlegar á sama tíma og grænt ljós var gefið á skólahald og ýmsa starfsemi á borð við veitingasölu, karaókí og sundlaugar,“ hefur AFP eftir Lee Cheuk-yan, formanni Hong Kong-bandalagsins sem hefur skipulagt mótmælin ár hvert frá árinu 1990.

Aðeins hafa rúmlega 1.000 smit kórónuveirunnar greinst í Hong Kong og fjórir dáið af völdum hennar. Þar af hafa fimm smit greinst síðastliðna tvo daga, en vikurnar tvær þar á undan greindist enginn smitaður.

Frelsisbarátta sem endaði með blóðsúthellingum

Mótmælin á Torgi hins himneska friðar marka djúp spor í sögu kínverska alþýðulýðveldisins en þau hófust eftir útför hins umbótasinnaða Hus Yaobangs vorið 1989. Stúdentar fóru fyrir mótmælunum og kröfðust þeir lýðræðislegra umbóta í landinu og aukins einstaklingsfrelsis. Mótmælin undu upp á sig og í byrjun maí voru yfir 100.000 mótmælendur samankomnir á torginu við Alþýðuhöllina þar sem löggjafarþing Kína kemur saman. Þá hafði mótmælaaldan borist til annarra landsvæða, svo sem Taívan og Hong Kong, sem þá var breskt verndarsvæði.

Þessi mynd, sem tekin var á Torgi hins himneska friðar …
Þessi mynd, sem tekin var á Torgi hins himneska friðar 5. júní 1989, hefur öðlast sinn sess í sögubókunum.

Lýstu stjórnvöld yfir herlögum 20. maí. Tveimur vikum síðar voru herdeildir sendar til að gera atlögu að mótmælendum. Hríðskotarifflum og skriðdrekum var beitt á fjöldann á torginu og mótmælin kveðin niður. Talið er að hundruð ef ekki þúsundir manna hafi verið drepin.

Mótmælanna hefur verið minnst ár hvert í Hong Kong og hefur kertafleytingin 4. júní dregið til sín fjölda fólks. Hefur athöfnin verið sú eina á kínverskri grundu þar sem atburðarins er minnst, en öll umræða um atburðarásina sætir mikilli ritskoðun á meginlandi Kína, þar sem til hans er vísað sem „4. júní atviksins“. Minningarathöfnin í Hong Kong í fyrra var með eindæmum fjölmenn en nokkrum vikum síðar hófust umfangsmikil mótmæli í sjálfstjórnarhéraðinu, sem vörðu í sjö mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert