Tveir menn eru í haldi lögreglunnar í Ósló, sem útilokar ekki fleiri handtökur, eftir skotárás í íbúð í Torshov-hverfinu þar í borginni síðdegis í dag þar sem maður á fimmtugsaldri varð fyrir skoti.
Það var laust eftir klukkan 16 í dag að norskum tíma sem lögreglu barst tilkynning um skothvell frá íbúðinni og hélt fjöldi lögreglubifreiða á staðinn auk vopnaðrar sérsveitar og sjúkrabifreiða. Á vettvangi fannst maðurinn sem fyrir árásinni varð með skotsár á handlegg og var hann færður tafarlaust undir læknishendur á Ullevål-sjúkrahúsinu þar sem hann gekkst undir aðgerð í kvöld.
Fórnarlambið er ekki í lífshættu en ekki hefur þó verið unnt að yfirheyra það enn sem komið er. Samkvæmt framburði vitna voru þrír aðrir menn í íbúðinni áður en lögregla kom á vettvang og hófst leit að þeim þegar.
Það var svo laust fyrir klukkan ellefu í kvöld að lögreglan í Ósló greindi frá því á Twitter að tveir menn hefðu verið handteknir í tengslum við málið en Andre Kråkenes aðgerðastjóri sagði fjölmiðlum enn fremur að leit að fleiri grunuðum stæði yfir og útilokaði lögregla ekki fleiri handtökur í tengslum við málið.
Tæknideild lögreglu er enn við störf í íbúðinni þar sem árásin átti sér stað og fóru lögreglumenn auk þess inn í nokkrar íbúðir í nágrenninu fyrr í kvöld. Thomas Broberg, stjórnandi lögreglu á vettvangi, sagði dagblaðinu VG að einhver munur, eða munir, sem hann kaus að útlista ekki nánar, hefði fundist við vettvangsrannsókn og kallaði á nánari athugun lögreglu.