Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur valið Amy Coney Barrett dómara til að fylla í skarð Ruth Ginsburg hæstaréttardómara sem féll frá fyrir viku síðan. Þetta fullyrðir New York Times en í frétt blaðsins er sömuleiðis sagt að Trump muni reyna að fá þingið til að staðfesta tilnefninguna fyrir kjördag í forsetakosningunum þar vestra í nóvember.
Trump mun, samkvæmt New York Times, tilnefna Barrett á morgun, og hefur NYT þetta eftir heimildarmönnum sem starfa við tilnefningarferlið.
Forsetinn fundaði með Barrett í vikunni og er sagður hafa verið ánægður með Barrett.
Hún er 48 ára, kaþólsk og er líklegt að tilnefning hennar verði umdeild þar sem hún þykir íhaldssöm. Var hún kjörin naumlega með 55 atkvæðum gegn 43, í umdæmisdómstól Bandaríkjanna í Chicago árið 2017 eftir tilnefningu Trumps.
Segja stuðningshópar þungunarrofs þar vestra að kjör hennar gæti orðið til þess að dómurinn líti framhjá dómafordæminu Roe gegn Wade, frá 1973, sem hefur gefið helsta fordæmið fyrir lögmæti þungunarrofs í Bandaríkjunum.
Að sögn heimildarmanna New York Times þá gæti forsetinn enn skipt um skoðun.
Fréttin hefur verið uppfærð