Endursendu 260 tonn af rusli

Mikið er um að rusl sé sent til þróunarlanda í …
Mikið er um að rusl sé sent til þróunarlanda í stað þess að það sé endurunnið. CHRISTOPHE SIMON

Yfirvöld í Sri Lanka hafa endursent fjölda gáma sem upphaflega komu frá Bretlandi fullir af alls kyns rusli og úrgangi. Segja yfirvöld í Sri Lanka að gámarnir hafi verið sendir til landsins, þvert á alþjóðalög um förgun hættu- og spilliefna.

Ruslið sem var í gámunum, sem voru 21 talsins, vó um 260 tonn og samanstóð aðallega af úrgangi sem fellur til á sjúkrahúsum. Samkvæmt tollaskrám áttu gámarnir aðeins að geyma, teppi, dýnur og aðra vefnaðarvöru en annað kom þó á daginn.

Tollayfirvöld í Sri Lanka greindu ekki frá því hvers eðlis úrgangurinn frá sjúkrahúsunum var en dæmi eru um að gámar séu sendir til þróunarlanda með notuðum plástrum, grisjum og rúmlökum og jafnvel líkamshlutum úr líkhúsum.

Mikið er um að rusl og úrgangur sé sendur með þessum hætti til þróunarlanda og hafa þau lönd sem gámarnir eru sendir til gripið til þess ráðs að senda þá bara til baka. Hins vegar leiddi rannsókn, sem gerð var í Sri Lanka í fyrra, í ljós að 180 tonn af rusli sem endursend voru til sendanda döguðu uppi í öðrum þróunarlöndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka