Stjórnmálaskýrendur virðast á sama máli um að stjórnleysi og beiskja hafi einkennt fyrstu kappræður forsetaframbjóðenda Bandaríkjanna, Donalds Trumps og Joes Bidens í nótt.
Frammíköll, óp og öskur voru áberandi þegar rætt var um kórónuveirufaraldurinn, völd og efnahagsmál í kappræðunum sem stóðu yfir í 90 mínútur. Biden kallaði Trump meðal annars trúð og sagði honum að þegja og Trump talaði um lyfjanotkun sonar Bidens.
Skoðanakannanir benda til þess að Biden njóti meiri vinsælda meðal kjósenda en að einn af hverjum tíu eigi enn eftir að gera upp hug sinn 35 dögum fyrir kjördag.
Chris Wallace, fréttamaður hjá Fox News, stýrði umræðunum og virtist hann eiga fullt í fangi með að hemja frambjóðendurna. Wallace spurði Trump hvort hann væri reiðubúinn að fordæma hvíta öfgamenn (white supremacists). Fyrst svaraði Trump því til að það myndi hann gera en þegar hann var beðinn að fordæma opinberlega öfgahópinn Proud Boys dró Trump úr og sagði að einhver yrði að gera eitthvað í sambandi við vinstrisinnaða og Antifa-hreyfinguna.
Áður hafði Biden sagt að Trump væri sá forseti sem hefði nýtt hvað sem er til þess að auka á andúð og kynþáttahatur í Bandaríkjunum.
Að sögn Bidens brást Trump í kórónuveirufaraldrinum, sem hafi kostað yfir 200 þúsund Bandaríkjamenn lífið. Hægt hefði verið að koma í veg fyrir fjölmörg dauðsföll ef Trump hefði brugðist gáfulegar, fyrr og betur við. Þessu mótmælti Trump og gagnrýndi Biden fyrir að nota orðið gáfulegar þar sem Biden hefði sjálfur verið lægstur eða með þeim lægstu í bekknum þegar hann var í námi.
Kappræðurnar fóru fram í Cleveland í Ohio og var þess krafist að allir í salnum væru með grímu en fjölskylda forsetans fór ekki að tilmælunum fyrir utan forsetafrúna sjálfa, Melaniu Trump, sem bar grímu allan tímann.
Eitt af því sem fjölmiðlar gerðu á meðan kappræðurnar stóðu yfir var að staðreyna það sem frambjóðendurnir sögðu.
Meðal þess sem kemur fram í samantekt AFP-fréttastofunnar er að Trump hafi logið því að póstkosning muni leiða til meira svindls en áður hefur þekkst á meðan Biden sagði réttilega að aldrei hefði tekist að sanna svindl í tengslum við póstkosningar.
Vísar AFP þar í sérfræðinga, þar á meðal yfirmann FBI, Christopher Wray, sem bar eiðsvarinn vitni fyrir öldungadeildinni þar sem hann sagði að aldrei í sögulegu samhengi hefði verið sýnt fram á að slíkt svindl í póstkosningum. Í sama streng taka yfirmenn kjörstjórna enda hafi lengi verið hægt að kjósa með þeim hætti í Bandaríkjunum. Það sé eiginlegra líklegra að verða fyrir eldingu en að einstaklingur muni svindla í póstkosningum.
Trump endurtók enn einu sinni orðræðu sína um að hann hefði byggt upp besta efnahag landsins sögulega séð. Ýmislegt sé ekki rétt og misvísandi þegar Trump segi það. Rétt sé að atvinnuleysi hafi ekki verið minna í hálfa öld í desember 2019 er það mældist 3,5%. Aftur á móti var greint frá því í janúar í ár af hálfu atvinnumálaráðuneytisins að á þeim þremur árum sem Trump hafi verið við völd hafi dregið umtalsvert úr fjölgun starfa á vinnumarkaði.
Alls urðu 6,5 milljón ný störf til á árunum 2017-2019 samanborið við yfir átta milljónir nýrra starfa þrjú árin á undan þegar Barack Obama var forseti Bandaríkjanna. Frá því COVID-19-faraldurinn braust út hefur ástandið versnað til muna og mældist atvinnuleysi 14,7% í apríl.
Árið 2018 mældist hagvöxtur 3% sem er besta árið í sögu Trumps í embætti forseta. Árið 2015 mældist hagvöxturinn 3,1% en þá var Obama forseti. Á árunum 2004 og 2005 var hagvöxturinn 3,8% og 3,5% í forsetatíð George W. Bush og enginn þessara þriggja forseta getur státað af viðlíka hagvexti og var um miðja síðustu öld þegar hann mældist iðulega um og yfir 5%.
Gengi hlutabréfa hefur hækkað og náði Dow Jones sínu hæsta gildi sögulega séð 12. febrúar 2020. Hinn 20. mars 2020 lauk aftur á móti verstu viku á Wall Street síðan í efnahagshruninu 2008.