Óttast yfirfull sjúkra- og líkhús

AFP

Ríkin Michigan og Washington hafa bæst í hóp ríkja Bandaríkjanna sem hafa gripið til harðra aðgerða í baráttunni við Covid-19. Menntaskólar og háskólar hætta staðnámi og veitingastöðum er bannað að taka við gestum innandyra í Michigan frá miðvikudegi.

Í Washington-ríki verður einnig bannað að borða inni á veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum, leikhúsum og söfnum verður einnig lokað. 

AFP

Yfir 11 milljónir hafa smitast af kórónuveirunni í Bandaríkjunum og á hverjum degi eru yfir 100 þúsund smit staðfest í landinu. Að meðaltali deyja 900 á degi hverjum úr Covid-19 þar í landi. Í Chicago er öllu skellt í lás í dag og fólk beðið um að halda sig heima. Jafnframt eru yfirvöld í New York að herða reglur til muna. 

Alls hafa 54 milljónir greinst með veiruna í heiminum og 1,3 milljónir hafa látist. 

Ríkisstjórn Donalds Trumps sagðist vonast til þess að geta komið 20 milljónum skammta af bóluefni í dreifingu strax í desember og sama skammt á hverjum mánuði eftir það. Enn hefur ekki verið gefin út heimild til þess að dreifa nýja bóluefninu. Hvorki þar í landi né annars staðar.

AFP

Nýjum smitum hefur fjölgað hratt í Michigan og Washington, fjöldi þeirra tvöfaldast undanfarnar vikur að því er segir í frétt BBC.

Ríkisstjórinn í Michigan, Gretchen Whitmer, óttast að ríkið standi við hengiflug og búast megi við yfir eitt þúsund andlátum í hverri viku vegna Covid-19 nema gripið verði til harðra aðgerða. 

Í Washington-ríki taka hertar aðgerðir gildi síðar í dag og munu þær gilda í mánuð. Ríkisstjórinn í Washington, Jay Inslee, sagði í gær að dagurinn væri hættulegasti í heilbrigðiskerfi ríkisins í meira en 100 ára sögu þess. Farsóttin er að verða alvarlegri og ef ekki verði gripið til harðra aðgerða megi búast við yfirfullum sjúkrahúsum og líkhúsum. Það valdi því að fólk sem glími við önnur veikindi en Covid-19 fái ekki þá aðstoð sem því er nauðsynleg.

Oregon og Nýja-Mexíkó hertu reglur á laugardag og Kalifornía varð á föstudag annað ríkið í Bandaríkjunum þar sem smitin fara yfir eina milljón. Texas hafði áður náð þeim fjölda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert