Móðirin laus úr haldi

Íbúð mæðginanna í Haninge, suður af Stokkhólmi.
Íbúð mæðginanna í Haninge, suður af Stokkhólmi. AFP

Sjötug kona er ekki lengur grunuð um að hafa haldið syni sínum föngnum í íbúð þeirra í úthverfi Stokkhólms áratugum saman að sögn saksóknara í Stokkhólmi. Saksóknari segir að syninum hafi ekki verið haldið gegn eigin vilja.

Lögreglan handtók konuna fyrr í vikunni og sagði að syninum, sem er 41 árs, hafi verið haldið föngnum í langan tíma í íbúð þeirra í úthverfi höfuðborgar Svíþjóðar.

AFP-fréttastofan vísar í  sænska fjölmiðla um að systir mannsins hafi farið inn í íbúðina á sunnudag eftir að hún hafi komist að því að móðirin væri á sjúkrahúsi. Þar hafi hún fundið bróður sinn sem hún hafði ekki séð í 20 ár. Ekki kemur fram hvort móðirin sé einnig móðir hennar. Systirin sagði að konan hafi tekið son sinn úr skóla er hann var 12 ára og einangrað hann frá umheiminum í 28 ár. Þegar málið kom upp var talað um frænku mannsins í sænskum fjölmiðlum en að sögn AFP er hún systir mannsins.

Þegar hún kom inn í íbúðina fann hún bróður sinn, vannærðan, með sýkingar í sárum á fótum, nánast tannlausan og gat hann varla tjáð sig. Hann var fluttur á sjúkrahús með hraði og þar fór hann í aðgerð. Læknar höfðu samband við lögreglu og tilkynntu um ástand mannsins. 

Móðirin var handtekin í kjölfarið grunuð um illa meðferð og að hafa haldið syni sínum án hans vilja. Hún var látin laus úr haldi í gær.

Emma Olsson saksóknari segir í samtali viðAFP að konan hafi ekki lengur stöðu grunaðs þar sem rannsókn hafi leitt í ljós að manninum var frjálst að fara út úr íbúðinni. Ekkert bendi til þess að hann hafi verið læstur inni, bundinn eða líkamlega heftur við að fara út. Engin læst svæði voru í íbúðinni.

Tæknideild lögreglunnar í Stokkhólmi rannsakaði íbúðina.
Tæknideild lögreglunnar í Stokkhólmi rannsakaði íbúðina. AFP

Hún segir að maðurinn hafi sjálfur sagt að þetta væri það sem hann vildi og hann mætti fara ef hann vildi. „Hann er fullroðinn og gat farið út ef hann vildi,“ segir Olsson og bætir við að vitni hafi greint frá því að hafa séð hann úti við einstaka sinnum. Læknisrannsókn hefur heldur ekki leitt í ljós að hann hafi verið beittur líkamlegu ofbeldi. 

„Hann er ekki með neina áverka sem veittir voru með ofbeldi. Sárin eru vegna sjúkdóms, sár sem sýking hefur komist í.“

Olsson segir að félagsþjónustan sé að rannsaka málið, einkum að hann hafi verið látinn hætta í skóla 12 ára og haldið einöngruðum heima.

Hún segir að það sé félagsþjónustunnar að veita mæðginunum aðstoð. 

Frétt SVT

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert