Bóluefni á aðfangadag

Norsk stjórnvöld reikna með að fá fyrstu 10.000 skammtana af …
Norsk stjórnvöld reikna með að fá fyrstu 10.000 skammtana af bóluefni Pfizer og BioNTech við kórónuveirunni á aðfangadag og hefja bólusetningar forgangshópa í Óslo, þar sem ástandið er langverst, 27. desember. AFP

Fáist leyfi til að nota kórónuveirubóluefnið frá Pfizer og BioNTech í Evrópu reikna norsk stjórnvöld með að fá fyrstu 10.000 skammtana af bóluefninu á aðfangadag og hefja bólusetningar 27. desember, fyrst með bólusetningu þeirra sem njóta forgangs til slíks og búsettir eru í höfuðborginni Ósló og nágrenni, þar sem hrein vargöld hefur ríkt hvað smittíðni snertir og nánast allir samkomustaðir aðrir en verslanir lokaðir fram til 7. janúar.

Forgangshóparnir í Noregi eru fólk búsett á umönnunarheimilum, þar næst fólk eldri en 64 ára, svo yngra fólk með undirliggjandi sjúkdóma og þar á eftir starfsfólk í heilbrigðisgeiranum. Stefna norskra stjórnvalda er að 70 prósent fólks í þessum hópum hafi fengið bólusetningu fyrir páska.

„Það er gleðiefni að fyrstu skammtar bóluefnisins gætu verið komnir til Noregs þegar á aðfangadag,“ er haft eftir Ernu Solberg forsætisráðherra í fréttatilkynningu. Samkvæmt sömu tilkynningu eiga öll sveitarfélög landsins að vera komin með allan útbúnað til bólusetninga, nema sjálft bóluefnið, á morgun, 18. desember, og heilbrigðisstarfsfólk þar tilbúið að hefja bólusetningar.

Þarf að vera við -70 gráður

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið það út að bólusetningar í Evrópulöndum skuli hefjast dagana 27. til 29. desember. Bóluefnið, sem er á leið til Noregs, kemur í gegnum Svíþjóð sem er eitt sölu- og dreifingarlanda bóluefnis fyrir hönd ESB.

Heimilislæknar og fulltrúar sveitarfélaga munu hafa samband við fólk og boða það til bólusetningar eftir því sem bóluefnið berst til landsins og fer í dreifingu. Þeir sem ekki eru í forgangshópum mega búast við að verða boðaðir í bólusetningu tímabilið milli páska og sumarbyrjunar, en engum úr þeim hópi er skylt að láta bólusetja sig, fólk ræður því sjálft.

Heilmikið fyrirtæki er að flytja bóluefnið milli staða, en við geymslu fram að notkun þarf efnið að vera í 70 gráða frosti og hefur sérútbúin bifreið með frystihólfi verið útbúin til að annast flutning fyrstu skammtanna sem til Noregs koma.

„Lýðheilsustofnun annast flutning bóluefnisins og dreifingu milli sveitarfélaga,“ er haft eftir Bent Høie heilbrigðisráðherra í fréttatilkynningunni. „Mjög mikilvægt er að ekkert af bóluefninu fari til spillis, endingartími þess er mjög stuttur þegar það er ekki í frysti,“ segir ráðherra og tekur fram að Ósló og nágrenni njóti forgangs um bólusetningar þar sem ástandið hafi verið langverst á öllu landinu þar hinar síðustu vikur.

NRK

VG

VGII

E24

Upplýsingasíða norsku ríkisstjórnarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert