Flutt nokkra metra fyrir milljarð

Gauksstaðaskipinu, sem talið er smíðað um árið 900 og fannst …
Gauksstaðaskipinu, sem talið er smíðað um árið 900 og fannst í haugi í Vestfold 1880, er bráð hætta búin í hundrað ára gömlu húsnæði Víkingaaldarsafnsins á Bygdø. Nú stendur til að flytja það yfir í viðbyggingu sem opnuð verður árið 2026. Ljósmynd/Háskólinn í Ósló/Menningarsögusafn

Flutningasamningur Statsbygg, umsjónaraðila fasteigna norska ríkisins, við fyrirtækið Imenco, sem hefur höfuðstöðvar sínar í Tysvær í Noregi, hljóðar upp á 70 milljónir norskra króna, rúmlega milljarð íslenskra króna, og var gerður heyrum kunnur í dag.

Imenco, sem fram til þessa hefur verið þekktast fyrir ýmsar neðansjávarlausnir fyrir norska olíuvinnslu, svo sem ljós og myndavélar á fjarstýrða kafbáta, og nú í seinni tíð myndavélakerfi og hugbúnaðarlausnir fyrir sjókvíaeldi, hefur tekist á hendur það verkefni að flytja þrjú skip úr húsnæði nokkru yfir í nýja viðbyggingu við það sem brátt verður tekið að reisa.

Skipin eru hin fornfrægu norsku víkingaskip í Víkingaaldarsafninu á Bygdøy í Ósló, Gauksstaðaskipið, Ásubergsskipið og Tune-skipið sem til stendur að flytja yfir í nýja hringlaga viðbyggingu við safnið, verðlaunatillögu dönsku arkitektastofunnar AART architects í samkeppni um nýja safnbyggingu sem gert er ráð fyrir að kosta muni 870 milljónir noskra króna, jafnvirði rúmlega 13 milljarða íslenskra, og vænst er að standi fullbyggð árið 2026.

Nýja safnið verður með töluvert öðru sniði en gamla krosslaga …
Nýja safnið verður með töluvert öðru sniði en gamla krosslaga byggingin frá 1926 en verður þó byggt áfast henni. Verðmiðinn er 13 milljarðar í íslenskum krónum talið. Ljósmynd/AART architects

„Þetta er okkur mikil áskorun sem gerir ríkulegar kröfur til okkar. Við megum ekki við handvömm, þá fer heimsarfurinn í mél,“ sagði Geir Egil Østebøvik, eigandi og forstjóri Imenco, við kynningu flutningasamningsins í dag. „Verkefnið er okkur hvatning, augu heimsins munu hvíla á okkur og hefðum við ekki haldgóða reynslu af áhættustjórnun hefðum við aldrei þorað að taka þetta að okkur,“ sagði hann enn fremur.

Ólafur Geirstaðaálfur í haugnum

Skipin þrjú, flaggskip Víkingaaldarsafnsins í bókstaflegri merkingu, eru best varðveittu víkingaskip sem fundist hafa í heiminum, Gauksstaðaskipið og Ásubergsskipið þeirra kunnust. Það fyrrnefnda fannst árið 1880 í Gauksstaðahaugnum svokallaða, eða Konungshaugnum, í Sander í Vestfold, þar sem nú er bærinn Sandefjord.

Gauksstaðaskipið er almennt talið frá því um 900, það er langskip, 24 metra langt og um fimm metrar á breiddina um miðbikið. Í því var höfðingi lagður til hinstu hvílu í haugnum, en sá er talinn hafa verið Ólafur Geirstaðaálfur Guðröðarson, eldri bróðir Hálfdánar svarta, en helstu heimildir um Ólaf, þótt rýrar séu, er að finna í Heimskringlu Snorra auk Ynglingatals, sagnakvæðis Þjóðólfs úr Hvini.

Ásubergsskipið er býsna svipmikið þótt það sé öllu minna en …
Ásubergsskipið er býsna svipmikið þótt það sé öllu minna en Gauksstaðaskipið og hafi verið innfjarðaskip en ekki hafskip. Líklegt er að það hafi verið smíðað við vesturströnd Noregs árið 820 eða þar um bil, en fannst í Tønsberg á suðausturlandinu, elsta bæ Noregs að því talið er, þúsund ára afmæli hans var fagnað árið 1971. Ljósmynd/Wikipedia.org/Petter Ulleland

Ásubergsskipið fannst hins vegar í Tønsberg árið 1904 og er töluvert minna um sig en Gauksstaðaskipið, hefur verið innfjarðaskip á meðan Gauksstaðaskipið var hafskip. Niels Bonde, rannsakandi við Þjóðminjasafnið í Kaupmannahöfn, setti árið 2009 fram þá kenningu að timbrið í Ásubergsskipið hefði komið frá Karmøy úti fyrir Haugesund við vesturströnd Noregs og þar hafi skipið jafnvel verið smíðað, um árið 820.

Minnst skipanna þriggja er svo Tuneskipið sem fannst á Rolvsøy, skammt frá Fredrikstad, árið 1867, upphaflega 19 metra langt en ekki varðveittist af því meira en 15 metra langur hluti skrokksins.

Minnst er varðveitt af Tuneskipinu, aðeins 15 metrar af 19 …
Minnst er varðveitt af Tuneskipinu, aðeins 15 metrar af 19 heildarmetrum á lengdina. Það fannst skammt frá Fredrikstad árið 1867 og er líklega á aldur við Gauksstaðaskipið, frá því um 900. Ljósmynd/Wikipedia.org/China Crisis

Gamla Víkingaaldarsafnið, sem byggt var árið 1926, er ekki lengur talið forsvaranlegt húsnæði fyrir hin fornu fley, húsnæðið er ekki nægilega þétt og má greina töluverðar skemmdir, sígliðnandi sprungur, í tréverki Gauksstaðaskipsins. Árið 2019 sló Hanna Geiran þjóðminjavörður því föstu að veruleg hætta væri á að skipin hreinlega molnuðu í sundur í gamla safnhúsinu og var þá þegar tekið að leggja á ráðin um nýtt og öruggara húsnæði í viðbyggingu dönsku arkitektanna sem ráðgert er að opna safngestum árið 2026.

NRK

NRKII (nýja safnið)

NRKIII (skipin í hættu)

VG

Adresseavisen

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert