Það var í mars í fyrra sem þýska utanríkisráðuneytið brá skjótt við og gerði út fjölda farþegaflugvéla flugfélagsins Lufthansa sem flugu heimshornanna á milli, þar á meðal alla leið til Perú og Suður-Afríku, til að sækja Þjóðverja á faraldsfæti og fljúga með þá heim í skugga veirubálsins sem læsti klónum í heimsbyggðina á ískyggilegum hraða. Um miðjan apríl höfðu 240.000 Þjóðverjar verið sóttir út um allar jarðir og færðir heim.
Segja má að sagan endurtaki sig nú að hluta, núna eru það þó ekki þýsk stjórnvöld sem vinna baki brotnu við að koma Þjóðverjum heim, heldur þýska ferðaskrifstofan Olimar sem sérhæfir sig í orlofsferðum til Portúgals.
Svo rammt kveður að hinu indverska afbrigði kórónuveirunnar þar í landi, að á miðnætti í kvöld, mánudag, taka reglur um 14 daga sóttkví gildi í Þýskalandi fyrir alla þá sem þangað koma frá Portúgal, einnig þá sem fengið hafa báðar bólusetningarsprauturnar, svo skæð er indverska veiran.
Þjóðverjar í fríi í Portúgal skipta þó ekki þúsundum, en eru nokkur hundruð að sögn talsmanna Olimar. Portúgal kemst þar með á válista þýskra stjórnvalda þar sem 15 lönd eru fyrir, Bótsvana, Brasilía, Esvatíní, Indland, Lesótó, Malaví, Mósambík, Namibía, Nepal, Rússland, Sambía, Suður-Afríka, Bretland, Úrúgvæ og Simbabve.
Eins og sakir standa eru 15 prósent nýrra kórónuveirusmita í Þýskalandi af völdum indverska afbrigðisins, eða Delta-afbrigðisins svokallaða, og óttast þarlend stjórnvöld að fjórða bylgja faraldursins bresti þar á fari sem horfir.
Staðan í Þýskalandi er þó langt í frá alslæm, landsmenn hafa verið sprautaðir með 71,4 milljónum skammta af bóluefnum og hafa 53,3 prósent þeirra fengið fyrri sprautuna en 34,8 prósent báðar. Meira en milljón manns eru bólusettir þá daga sem afköstin eru mest, á miðvikudaginn í síðustu viku taldi Robert Koch-stofnunin til dæmis að 1.290.488 manns hefðu verið sprautaðir.