Íhuga að slíta tengsl við Rússa

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu.
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu. AFP

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, segir stjórnvöld í landinu íhuga að slíta á öll diplómatísk samskipti við Rússa eftir að þeir viðurkenndu sjálfstæði tveggja svæða aðskilnaðarsinna í landinu.

„Ég hef fengið beiðni frá utanríkisráðuneytinu um að skoða það að slíta öllum samskiptum á milli Úkraínu og Rússlands,“ sagði Zenesky og bætti við að hann myndi „kanna og vinna í þessu máli“.

Zelensky hefur einnig krafist þess að hlé verði gert á verkefninu Nord Stream 2. Um er að ræða gasleiðslu sem liggur frá Rússlandi til Þýskalands í gegnum Eystrasalt.

Sömuleiðis hefur hann varað við því að viðurkenning Rússa á sjálfstæði svæðanna sé undanfari frekari hernaðaðgerða af hálfu Rússa.

„Við teljum að með ákvörðuninni vilji Rússar búa til lagalegan grundvöll fyrir frekari hernaðarátök gegn Úkraínu og brjóta þannig gegn öllum alþjóðlegum skyldum sínum,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka