„Við höfum sannað að Rússland er að verða nútímalegt lýðræðisríki,“ sagði Vladimír Pútín þegar hann tók við forsetaembættinu í Rússlandi af Boris Jeltsín þegar árið 2000 var að ganga í garð. Nú hefur hann ráðist inn í Úkraínu og Bandaríkin og bandamenn þeirra kallar hann „heimsveldi lyginnar“.
Málatilbúnaður Pútíns hefur tekið stakkaskiptum frá því að hann fyrst komst til valda, handvalinn af innsta hring Jeltsíns til að taka við af manninum, sem vann hugi og hjörtu rússnesku þjóðarinnar þegar Sovétríkin riðuðu til falls, en hafði ekki tekist uppfylla drauma Rússa og þrár.
Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins er rakið hvernig Pútín tileinkaði sér í upphafi tungutak lýðræðis, þótt í Rússlandi hefðu þær pólitísku stofnanir, sem teknar voru upp að vestrænni fyrirmynd verið eins og sunnudagsföt, sem menn klæddust þegar kæmu gestir, en færu ekki í heima hjá sér, svo vitnað sé í einn aðstoðarmann Pútíns.
Kúvending varð þegar Pútín flutti ræðu á öryggisráðstefnunni í München 2007 og hann hellti sér yfir vestræn ríki beint fyrir framan Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og fleiri ráðamenn. Þar sagði hann beinlínis að allt tal Vesturlanda um lýðræði og mannréttindi væri fyrirsláttur í forhertri sókn eftir völdum. Þetta væri engum betur ljóst en þeim, sem orðið hefði undir í þessari viðureign líkt og Rússar þegar járntjaldið féll.
Í sókn sinni til að endurheimta veldi Rússlands notar Pútín óhikað sömu rök mannréttinda og lýðræðis og Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið, spinnur hagræðir og stillir öllu á hvolf og finnst hann þar með reka spegil framan í hræsnisfull Vesturlönd, sem séu engu skárri.
Lesið nánar um orðastríð Pútíns í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.