Talið er að um það bil 200.000 almennir borgarar séu fastir í úkraínsku borginni Maríupol sem sprengjum hefur rignt yfir dögum saman. Ástandið í borginni er sagt skelfilegt en þar er hvorki rennandi vatn né rafmagn. Þá liggja lík fallinna borgara afskiptalaus á götum úti.
Flutningur á almennum borgurum frá Maríupol á að hefjast núna klukkan 12 að staðartíma eða 10 að íslenskum tíma eftir að aftur var samið um tímabundið vopnahlé í borginni. Samið var um vopnahlé í gær sem rússneskar hersveitir virtu ekki. Því þurfti að bíða með fólksflutninga en nú er komið að tilraun tvö.
Nú hafa íbúar Maríupolar verið í fimm daga án rennandi vatns og rafmagns. Þá eru matar- og vatnsbirgðir á svæðinu nánast uppurnar.
Maxim, 27 ára gamall hugbúnaðarsérfræðingur, ræddi við BBC í gærkvöldi. Maxim býr með ömmu sinni og afa í borginni og ætluðu þau sér að flýja borgina í gær. Það tókst ekki.
„Það kom margt fólk inn í miðbæinn [í gær] vegna þess að það heyrði af vopnahléinu,“ sagði Maxim. Þetta fólk festist því í miðbænum þegar ekkert varð úr áætlunum um að flytja fólk þaðan. Því hleyptu Maxim og amma hans og afi fjölda fólks inn í íbúðina sína svo það gæti fengið skjól yfir nóttina.
„Vopnahléið var lygi. Önnur hliðin ætlaði aldrei að hætta að skjóta. Ef þeir segja að það verði annað vopnahlé verðum við að reyna að fara en við vitum ekki hvort [vopnahléið] verði raunverulegt. Kannski væri betra fyrir okkur að fela okkur.“