Segir barnaspítalann hafa verið herstöð

Sergei Lavrov á blaðamannafundi í Antalya eftir fund ráðherranna.
Sergei Lavrov á blaðamannafundi í Antalya eftir fund ráðherranna. AFP

Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands segir barnaspítalann, sem ráðist var á í hafnarborginni Maríupol í gær, hafa verið starfandi sem herstöð fyrir úkraínska þjóðernissinna. 

Hafi hermenn verið búnir að skipa konum í hríðum og hjúkrunarfræðingum að yfirgefa bygginguna áður en hann var sprengdur.

Sprengjuárásin á spítalann í gær, sem varð þremur manneskjum að bana, þar á meðal lítilli stúlku, þykir sérlega óvægin og hefur vakið upp mikla reiði. Volodimír Selenskí forseti Úkraínu sagði árásina stríðsglæp.

Utanríkisráðuneyti Rússa hefur ekki neitað árásinni en hefur aftur á móti sakað Úkraínumenn um að hafa rýmt spítalann og síðar komið þar upp skotstöð fyrir hermenn. Lavrov tók undir þær ásakanir í dag.

Þrír létust í árásinni á barnaspítalann í gær.
Þrír létust í árásinni á barnaspítalann í gær. AFP/ Handout / National Police of Ukraine

Ráku fólk út

„Þetta fæðingarsjúkrahús hefur löngu verið hernumið af Asov-herfylkingunni og öðrum róttæklingum. Þeir ráku út konur í miðjum hríðum, hjúkrunarfræðinga og almennt starfsfólk. Þetta var herstöð fyrir hina róttæku Asov-herfylkingu,“ sagði Lavrov að loknum fundi sínum og úkraínska starfsbróðurins Dmítró Kúleba, sem haldinn var í Tyrklandi.

Var þetta í fyrsta sinn sem viðræður á svo háu stigi eiga sér stað á milli ríkj­anna tveggja frá því að stríð milli þeirra hófst með innrás Rússa fyrir tveimur vikum, eða þann 24. febrúar.

Hingað til hafa þrjár lotur viðræðna farið fram í Hvíta-Rússlandi en sendinefnd Rússa sem þangað hefur farið hefur ekki verið skipuð háttsettum embættismönnum. 

Evrópusambandið brjóti gildi sín

Á blaðamannafundi að loknum viðræðum sakaði Lavrov einnig Evrópusambandið og önnur lönd um hættulega háttsemi þar sem þau eru nú að styrkja vígbúnað Úkraínumanna með vopnasendingum.

„Við sjáum hvernig hinir vestrænu samstarfsfélagar, þar á meðal Evrópusambandið, hafa verið að bregðast við. Þetta er í bága við allar svokallaðar meginreglur og gildi þeirra. Þau styrkja birgðir Úkraínu af banvænum vopnum.“

Enginn árangur

Að sögn Kúleba náðist enginn árangur í viðræðum um vopnahlé í dag.

Lavrov sagði þó ennþá vilja af hendi Rússa til að halda áfram viðræðum en að fundurinn í dag hafi sýnt fram á að ekki sé hægt að gera það nema í samræmi við það skipulag sem hefur verið viðhaft í Hvíta-Rússlandi. 

Þá lagði hann mikla áherslu á að Rússar vildu traustar niðurstöður úr viðræðunum.

Lavrov sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseta ekki mótfallinn því að hitta Selenskí undir fjögur augu en að mikilvægt væri að samningamenn ríkjanna tveggja væru búnir að leggja grunninn með viðræðum í Hvíta-Rússlandi áður en hitt væri möguleiki.

„Úkraínska hliðin hefur móttekið okkar tillögur og lofað að veita okkur svör,“ sagði Lavrov.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka