Utanríkisráðuneyti Rússlands hefur tilkynnt að stjórnvöld landsins búi sig undir að ganga út úr Evrópuráðinu.
Þessi ákvörðun er birt einungis degi eftir að Úkraínumenn kröfðust þess að Rússum yrði tafarlaust vísað úr ráðinu enda hefðu þeir engan rétt á aðild vegna atburða síðustu daga.
Rússar höfðu áður verið sviptir fulltrúarétti sínum í Evrópuráðinu þann 25. febrúar, degi eftir að tugþúsundir hermanna réðust inn í Úkraínu.
Í yfirlýsingu sem utanríkisráðuneytið birti á samskiptaforritinu Telegram fyrr í dag segir að verið sé að hefja málsmeðferð vegna útgöngu þeirra úr Evrópuráðinu. Þar segir einnig að Rússar geti ekki verið áfram í ráðinu vegna þeirra „mismunaaðgerða“ sem búið væri að grípa til, var þá átt við um sviptingu fulltrúaréttarins.
„Við skiljum við slíkt Evrópuráð án eftirsjár,“ sagði í yfirlýsingunni.
Þá var einnig tekið fram að útgangan myndi ekki hafa áhrif á réttindi og frelsi rússneskra borgara og að ekki yrði vikið frá þeim samþykktum sem búið væri að gangast við er varða mannréttindi, svo lengi sem þær stangast ekki á við stjórnarskrá Rússlands.