Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, velti upp þeim möguleika að gera eldflaugaárásir á verksmiðjur fíkniefnaframleiðanda í Mexíkó meðan hann var í embætti.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri bók Mark Esper, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Bókin, A Sacred Oath kemur út á þriðjudaginn. Esper var ráðherra frá júlí 2019 til nóvember 2020.
Í útdrætti úr bókinni sem birtur er í New York Times kemur fram að Trump hafi talið að Bandaríkin gætu látið sem þau bæru ekki ábyrgð á eldflaugaárásunum.
Esper segir að árið 2020 hafi Trump tvívegis spurt hvort herinn gæti skotið eldflaugum á Mexíkó ti að eyðileggja verksmiðjur fíkniefnaframleiðanda.
Esper segist sjálfur hafa verið orðlaus yfir þessum hugmyndum forsetans.
Forsetinn fyrrverandi hafi einnig spurt hvort ekki væri hægt að skjóta mótmælendur þegar mótmælaalda braust út í kjölfarið á því að George Floyd lést í haldi lögreglu.
Trump vék Esper úr embætti í nóvember 2020, nokkrum dögum eftir að ljóst varð að Joe Biden hafði betur gegn Trump í forsetakosningunum.