Fleiri trúnaðarskjöl fundust á heimili forsetans

Joe Biden Bandaríkjaforseti á heimili sínu í Wilmington.
Joe Biden Bandaríkjaforseti á heimili sínu í Wilmington. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Fleiri trúnaðarskjöl hafa verið gerð upptæk á heimili Joe Bidens Bandaríkjaforseta eftir húsleit sem fór fram á heimili hans í Wilmington á föstudaginn.

Bob Bauer lögmaður forsetans sagði í yfirlýsingu að húsleitin hefði farið fram í samvinnu við lögmenn forsetans og tekið um það bil 13 klukkustundir.

Sérstakur saksóknari hefur verið tilnefndur eftir að trúnaðarskjöl voru gerð upptæk á heimili forsetans fyrr í mánuðinum. Sex trúnaðarskjöl fundust til viðbótar á föstudaginn en samkvæmt New York Times eru þau gögn bæði frá tíma hans sem þingmaður og varaforseti.

Lögmenn viðstaddir leitina

Í yfirlýsingu Bauer kom ekki fram hvers vegna húsleitin á föstudaginn hafi verið fyrirskipuð. Hann tók einungis fram að lögmenn forsetans hefðu boðið fram aðstoð sína við að greiða aðgengi fyrir leitina í þeim tilgangi að flýta fyrir ferli rannsóknarinnar eins og mögulegt væri.

Rannsakendur á vegum dómsmálaráðuneytisins skipulögðu leitina með aðstoð lögmanna Bidens, að sögn Bauer, og voru lögmenn forsetans og Hvíta hússins viðstaddir þegar hún fór fram.

„Bandaríska alríkislögreglan (F.B.I.) framkvæmdi samþykkta og skipulagða húsleiti á heimili forsetans í Wilmington,“ sagði Joseph D. Fitzpatrick, talsmaður sérstaks saksóknara sem fer fyrir rannsókninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka