Að minnsta kosti 57 manns hafa þjáðst af niðurgangi og ælupest eftir að hafa synt í sjónum við Sunderland í Norðaustur-Englandi. Sundið var liður í heimsmeistarakeppninni í þríþraut sem haldin var í Bretlandi síðustu helgi.
Heilsuverndaryfirvöld í Bretlandi segjast nú rannsaka hvað olli þessu.
Reglulegar prófanir bresku umhverfisstofnunarinnar seint í júlí, nokkrum dögum fyrir keppnina, leiddu í ljós að E.coli-bakteríur voru þar í miklu magni.
Breska þríþrautarsambandið segir þær prófanir þó hafa verið gerðar fyrir utan það vatnshlot, eða það svæði, sem lagt var undir keppnina. Þá segir sambandið að niðurstöðurnar hafi aðeins verið gefnar út eftir að keppninni var lokið.
Niðurstöður prófana sambandsins hafi aftur á móti uppfyllt kröfur þess.
Einn keppendanna, ástralski þríþrautarkappinn Jake Birtwhistle, segir á Instagram að honum hafi liðið illa frá því keppnin var haldin.
„Það hefði átt að aflýsa sundinu,“ segir hann og lætur með fylgja mynd af niðurstöðum prófananna.