Enn ein ákæran á hendur Trump

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, og Fani Willis, héraðssaksóknari í Fulton-sýslu …
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, og Fani Willis, héraðssaksóknari í Fulton-sýslu í Atlanta. AFP/Chandan Khanna og Christian Monterrosa

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur verið ákærður í Georgíu-ríki vegna ólögmætra tilrauna til þess að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna árið 2020 er Joe Biden bar sigur úr býtum. Um er að ræða fjórðu ákæruna á hendur Trump eftir að hann lét af embætti árið 2021. 

Saksóknarar í Atlanta-borg gáfu út ákæru á hendur Trump sem er í þrettán liðum en rannsókn á málinu hefur staðið yfir í nærri þrjú ár. Málið gæti leitt af sér fyrstu réttarhöld gegn fyrrverandi forseta sem yrðu sýnd í sjónvarpi. 

Ákæran snýr að brotum á lögum um starfsemi spilltra samtaka og fjármálamisferli. Þá eru sex liðir sem snúa að meintu samsæri Trump um falsanir, um tilraun til að villa á sér heimildir og birtingu falsaðra skjala og yfirlýsinga.

Frá blaðamannafundinum þar sem ákæran var kynnt.
Frá blaðamannafundinum þar sem ákæran var kynnt. AFP/Christian Monterrosa

Ásamt Trump eru 18 aðrir ákærðir, þar á meðal Rudy Giuliani, fyrrverandi lögmaður Trump, og Mark Meadows, starfsmannastjóri Trump í Hvíta húsinu.

Fani Willis, héraðssaksóknari í Fulton-sýslu í Atlanta, sagði á blaðamannafundi að Trump og hinir ákærðu hafi til 25. ágúst til þess að mæta „sjálfviljugir“ fyrir dóminn til að hlýða á ákærurnar. Þá bætti hún við að óskandi væri að réttarhöldin hæfust innan sex mánaða.

„Nornaveiðarnar halda áfram!

„Svo nornaveiðarnar halda áfram!“ sagði Trump í færslu á samfélagsmiðli sínum, Truth Social. 

Þá sagði hann að ákæran væri gefin út núna, en ekki fyrir tveimur og hálfu ári síðan, þar sem andstæðingar hans vildu hafa áhrif á forsetaframboð hans en Trump sækist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári.

Trump bíða einnig réttarhöld í New York, Washington og Flórída.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert