Skipuleggjandi 9/11 sagður játa sök

Mennirnir hafa komist að samkomulagi við bandarísk yfirvöld.
Mennirnir hafa komist að samkomulagi við bandarísk yfirvöld. AFP

Hryðjuverkamaðurinn sem talinn er vera skipuleggjandi árásarinnar á Tvíburaturnana 11. september 2001 er sagður hafa játað sök.

Í yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, Pentagon, segir að hinn pakistanski Khalid Sheikh Mohammed hafi náð samkomulagi við bandarísk yfirvöld og verður því ekki farið fram á dauðarefsingu yfir honum.

„Nákvæmir skilmálar og forsendur samkomulagsins eru ekki aðgengileg almenningi að svo stöddu,“ segir í yfirlýsingunni

Khalid Sheikh Mohammed.
Khalid Sheikh Mohammed. AFP

Verði ekki farið fram á dauðarefsingu

Mohammed er sakaður um að hafa skipulagt árásina á Tvíburaturnana í New York.

Nú hafa hann og samsærismenn hans tveir, Walid bin Attash og Mustafa al-Hawsawi, fallist á að játa á sig verknaðinn.

Verður líklega farið fram á lífstíðarfangelsi í fangelsinu við Guantanamo-flóa á Kúbu en ekki dauðarefsingu.

Þetta herma heimildarmenn New York Times í Pentagon.

Pyntingar CIA sem gætu hafa spillt sönnunargögnum

Mennirnir hafa verið í haldi frá árinu 2003 en málið ílengst í kerfinu í rúman áratug vegna ágreinings um hvort pyntingar, sem þeir þurftu að þola í fangelsum bandarísku leyniþjónustunnar CIA, gætu hafa spillt sönnunargögnum í málinu.

Mohammed var m.a. beittur vantspyntingu í allt að 183 skipti.

„Í skiptum fyrir að útiloka dauðarefsingu hafa þessir þrír menn samþykkt að játa á sig allar sakir sem þeir hafa verið bornir, þar á meðal morð á 2.976 manns sem útlistaðir eru í ákærunni,“ segir í bréfi til fjölskyldna mannanna sem NYT hefur undir höndum.

Bréfið virðist undirritað af saksóknaranum Aaron C. Rugh og þremur lögmönnum í hans teymi.

Mennirnir þrír eiga eftir að mæta í önnur réttarhöld en líklega ekki fyrr en á næsta ári. Dómari á eftir að veita málfutningi þeirra áheyrn en herdómnefnd þarf síðan að taka við vitnisburðum, meðal annars frá fórnarlömbum árásanna, og kveða upp dóm.

Áður en það gerist þarf herdómari að jafnaði hafa leyst úr málaferlum um hvaða sönnunargögn megi nota við dómsuppkvaðningu.

Í upphafi voru fimm menn ákærðir en tveir þeirra eru ekki hluti af þessu samomulagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka