Harris segir Trump hafa vanvirt helga jörð

Kamala Harris, forsetaefni demókrata í Bandaríkjunum.
Kamala Harris, forsetaefni demókrata í Bandaríkjunum. AFP/Christian Monterrosa

Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum, segir að Donald Trump, mótframbjóðandi hennar úr Repúblikanaflokknum, hafi vanvirt helga jörð í Arlington-kirkjugarðinum í Washington-borg í pólitískum tilgangi.

Á fimmtudaginn tilkynnti Bandaríkjaher um að starfsmanni kirkjugarðsins hefði verið „ýtt snögglega til hliðar“ í kjölfar þess að hafa beðið starfsfólk kosningateymis Trumps um að hætta að mynda við grafreit þar sem bandarískir hermenn sem hafa nýlega látist í stríði eru jarðaðir.

Á þeim stað er myndataka í pólitískum tilgangi bönnuð. Bandaríkjaher hefur sagt atvikið „óheppilegt“.

Starfsmaðurinn fyrirlitlegur

Atvikið átti sér stað þegar Trump ásamt tökuliði heimsótti kirkjugarðinn með fjölskyldum 13 hermanna sem voru drepnir í sprengjuárás í Kabúl, höfuðborg Afganistan, klukkustundum áður en Bandaríkjaher yfirgaf landið árið 2021.

Stjórn Joes Bidens, núverandi Bandaríkjaforseta, fyrirskipaði að afturkalla allt herlið úr landinu á sínum tíma og var sú aðgerð harðlega gagnrýnd.

Trump hefur sjálfur gagnrýnt ákvörðun Bidens í þessu máli í kosningabaráttu sinni og heldur Trump því fram að hann hefði afgreitt málið betur en sitjandi forseti, hefði hann haft kost á því. 

Kosningateymi Trumps hefur lýst kirkjugarðsstarfsmanninum sem „fyrirlitlegum einstaklingi“ og fullyrt að hún hafi verið veik á geði.

Donald Trump í Arlington-kirkjugarði 26. ágúst.
Donald Trump í Arlington-kirkjugarði 26. ágúst. AFP/Anna Moneymaker

Hermenn skuli vera heiðraðir

„Leyfið mér að vera alveg skýr: Forsetinn fyrrverandi vanvirti helga jörð, í pólitískum tilgangi,“ segir Harris um atvikið, á samfélagsmiðlinum X.

„Ef það er eitthvað sem við sem Bandaríkjamenn getum öll verið sammála um, er það að fyrrverandi hermenn okkar, fjölskyldur hermanna og hermenn sjálfir eigi að vera heiðraðir, aldrei lítilsvirtir, og komið fram við þá með okkar allra mestu virðingu og þakklæti,“ segir Harris.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert