Pútín segist styðja Harris í kosningunum

Vladimír Pútín og Kamala Harris.
Vladimír Pútín og Kamala Harris. Samsett mynd

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segist ætla að styðja Kamölu Harris, forsetaframbjóðanda demókrata, í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum, þrátt fyrir að hann sé þekktur fyrir að vera hliðhollur Donald Trump, frambjóðanda repúblikana. 

Pútín sagði Joe Biden Bandaríkjaforseta hafa „mælt með því við kjósendur að styðja frú Harris, við styðjum hana einnig“. Hann bætti við: „Hlátur hennar er svo smitandi, sem sýnir að það er í góðu lagi með hana.“

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, í Pennsylvaníu-ríki í gær.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, í Pennsylvaníu-ríki í gær. AFP/Mandel Ngan

„[Fyrrverandi Bandaríkjaforseti Donald] Trump hefur beitt fleiri refsiaðgerðum gegn Rússum en nokkur annar forseti og ef Harris gengur vel þá mun hún kannski ekki grípa til slíkra aðgerða,“ sagði hann.

Pútín lét ummælin falla degi eftir að bandarísk stjórnvöld sökuðu Rússa um að ætla hafa áhrif á forsetakosningarnar. Forsetinn tjáir sig oft á tíðum um stöðu mála í Bandaríkjunum, stundum með kaldhæðnina að leiðarljósi.

Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fara fram 5. nóvember. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert