Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að áætlun Úkraínu um að vinna Rússland í stríðinu sé háð stuðningi Bandríkjamanna.
„Hvað áætlunina varðar um sigur þá veltur hún að mestu á stuðningi Bandaríkjanna og annarra samstarfsaðila,“ sagði Selenskí á blaðamannafundi með Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem er í heimsókn í Kænugarði.
Ummæli Selenskí koma tæpum tveimur mánuðum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sem gætu verið krefjandi fyrir Úkraínu ef Donald Trump vinnur kosningarnar.
Selenskí hefur sagt að hann muni gera grein fyrir áætlun um að binda enda á stríðið í nóvember. Hann hefur haldið því fram að óvænt innrás úkraínskra hermanna í Kúrsk-hérað í Rússlandi geri Úkraínu kleift að fara í hugsanlegar samningaviðræður úr sterkri stöðu.
Úkraína hélt friðarráðstefnu í júní í Sviss með leiðtogum og æðstu embættismönnum frá meira en 90 löndum en bauð Rússum ekki. Selenskí sagði á dögunum að Rússar ættu að vera með næstu ráðstefnu en frá Kreml hafa komið þau skilaboð að Rússar útiloki viðræður eftir árásirnar í Kúrsk.