Rússneskir hópar hafa hert róðurinn þegar kemur að því að dreifa falsfréttum á netinu um Kamölu Harris, varaforseta Bandaríkjanna og forsetaefni demókrata. Þetta segja forsvarsmenn bandaríska tæknifyrirtækisins Microsoft.
Markmiðið er að sverta Harris með dreifingu á fölsuðum myndskeiðum þar sem m.a. ýmsum vafasömum og ósönnum fullyrðingum og samsæriskenningum gert gert hátt undir höfði.
Fyrr í þessum mánuði sökuðu bandarísk stjórnvöld rússnesku ríkisfréttastofuna RT um að reyna að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningar. Bandarísk stjórnvöld brugðu á það ráð að beita refsiaðgerðum gagnvart æðstu stjórnendum ríkismiðilsins.
Í lok ágúst bjó hópur, sem kallast Storm-1516 og tengist rússneskum stjórnvöldum, tvö fölsuð myndskeið sem beindust gegn framboði Harris og Tim Walz, sem er varaforsetaefni hennar. Þetta kemur fram í skýrslu sem Microsoft tók saman um málið. Þar segir enn fremur að myndskeiðin hafi verið spiluð mörg milljón sinnum.
Í öðru myndskeiðinu mátti sjá hóp af meintum stuðningsmönnum Harris ráðast á meintan stuðningsmann Trumps. Í hinu mátti sjá leikara halda fram ósannindum um að Harris hefði ekið á stúlku árið 2011 og stungið af. Tekið var fram að stúlkan hefði lamast vegna þessa.
Seinni myndskeiðið fór í dreifingu í gegnum vefsíðu sem þóttist vera fjölmiðill sem væri staðsettur í San Francisco, að því er segir í skýrslu Microsoft.
Annar rússneskur hópur, sem kallar sig Storm-1679, gerði slíkt hið sama, þ.e. dreifði fölsuðum myndskeiðum um Harris sem ætlað var að grafa undan henni.
„Breytingin sem snýr að því að einblína á framboð Harris og Walz endurspeglar skipulagðar aðgerðir af hálfu rússneskra aðila sem hafa það markið að nýta sér til framdráttar alla mögulega veikleika frambjóðendanna,“ segir Clint Watts, sem er framkvæmdastjóri Threat Analysis Center hjá Microsoft, sem hefur það verkefni að vega og meta mögulegar ógnir.
„Þegar við færumst smátt og smátt nær sjálfum kosningunum, þá megum við búast við að rússneskir hópar haldi áfram að nota aðila á netinu og hópa tölvuhakkara til að koma þeirra skilaboðum á framfæri sem víðast í gegnum síður fjölmiðla og samfélagsmiðla, í þeim tilgangi að dreifa vafasömu pólitísku efni, leiknum myndskeiðum og áróðri sem er búinn til með aðstoð gervigreindar,“ bætti Watts við.
Á morgun mun leyniþjónustunefnd Bandaríkjaþings hefja vitnaleiðslur sem varða þær erlendu ógnir sem Bandaríkjamenn standa frammi fyrir í komandi kosningum.