Árangurslaus leit að ferjuflugvél

Leit að lítilli eins hreyfils ferjuflugvél, með einn mann um borð, hefur ekki borið árangur. Leit hefur verið hætt í bili en leiðindaveður er á leitarsvæðinu.

Vélarinnar hefur verið saknað frá því skömmu eftir miðnætti aðfararnótt laugardags. Grænlensk vél leitaði meðfram strandlengjunni og meðfram Grænlandsjökli en ekki hefur verið hægt að fljúga yfir jökulinn vegna skýja. Tvær danskar herflugvélar sem einnig tóku þátt í leitinni milli Grænlands og Keflavíkur eru lentar í Keflavík og bíða eftir að veður batni á leitarsvæðinu. Flugvélin, sem er skráð í Bandaríkjunum og ber einkennisstafina N6333H, fór frá Narsarsuaq á Grænlandi kl. 15:42 í gær og hugðist flugmaðurinn fljúga sjónflug neðan flugstjórnarsvæðis til Íslands og vera rúmar átta klukkustundir á leiðinni. Flugvélin hafði flugþol til kl. 03:12. Síðast heyrðist til vélarinnar um 30 mínútum eftir flugtak er flugmaðurinn kallaði turninn í Narsarsuaq og sagðist ætla að fljúga beint yfir suðurhluta Grænlandsjökuls í stað þess að fljúga suður fyrir jökulinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert