Lúlli litli ekki enn kominn í leitirnar

Lúlli litli í stíu sinni í sumar.
Lúlli litli í stíu sinni í sumar. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Selkópurinn Lúlli er ekki enn kominn í leitirnar og hafa engar nýjar vísbendingar komið fram varðandi hvarf hans, að sögn Helga Sveinbjörnssonar, eins eigenda dýragarðsins. Landselskópurinn Lúlli litli labbakútur hvarf frá dýragarðinum í Slakka í Laugarási í Biskupstungum fyrir rúmri viku.

Einna helst er talið að Lúlla litla hafi verið rænt, en Helgi telur litlar líkur á því að kópurinn hafi getað strokið af bæ einn og óstuddur. Hann hafði samband við lögreglu á sínum tíma en þó hefur ekki verið lögð fram formleg kæra af neinu tagi og enginn er grunaður um verknaðinn. Helgi segir að eigendurnir hafi vonast til að einhver kæmi fram með upplýsingar um hvarf Lúlla eða hreinlega skilaði selnum eftir að fréttir komu af hvarfi hans í fjölmiðlum. Þetta gekk hins vegar ekki eftir. Hægt er að heimsækja hin dýrin í dýragarðinum í Slakka milli 13 og 18 á laugardögum og sunnudögum fram til 15. september.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert