Hægði á bílnum þegar hann sá vakir allt í kring

Vökin á Hafravatni þar sem jeppinn sökk.
Vökin á Hafravatni þar sem jeppinn sökk. mbl.is/ÞOrkell

Fimm ungmenni voru hætt komin þegar jeppi sem þau voru í fór niður um vök á Hafravatni, um 40 metrum frá landi, rétt eftir miðnætti í fyrrinótt. Stúlka náði ekki að losa öryggisbeltið áður en jeppinn sökk og fór með honum til botns.

Henni tókst að lokum að losa beltið og í sömu andrá kafaði kærasti hennar niður að jeppanum og togaði hana út. Ungmennin kröfluðu sig upp á ísinn og gengu og hlupu síðan rennblaut um 2-3 km leið að Bassastöðum þar sem þau fengu aðstoð. Norðankaldi, skafrenningur og um sex stiga frost var þegar þetta gerðist.

Ungmennin eru á aldrinum 18-19 ára, ein stúlka og fjórir piltar. Baldvin Vigfússon hafði fengið fjölskyldubílinn, rauðan Land Rover Discovery, árgerð 1998, lánaðan til að fara í bíó með vinum sínum. Í samtali við Morgunblaðið sagði Baldur að á heimleiðinni hafi honum og fleirum í bílnum dottið í hug að aka út á ísilagt Hafravatn. Þau töldu ísinn traustan en annað kom á daginn. Eftir um 500 metra akstur segist Baldvin hafa séð vakir allt í kring. Hann hægði á bílnum og ætlaði að snúa við en þá brotnaði ísinn undan framhjólunum og bíllinn byrjaði að sökkva. "Við urðum verulega skelkuð," segir Baldvin. Þegar hann áttaði sig á hvað var að gerast reyndi hann að opna hurðina en tókst ekki þar sem vatn og ís þrýstu á móti. Hann skrúfaði þá niður rúðuna og klifraði út, í þann mund sem vélarhlífin fór á kaf. "Þetta gerðist svo snöggt. Ég var bara allt í einu kominn út úr bílnum og ofan í vatnið. Þegar ég sá að allir voru komnir úr bílnum hugsaði ég bara um að halda mér á floti," segir hann. Hann telur að piltur sem sat í framsæti hafi líka komist út með því að skrúfa niður rúðu. Tveir piltar í aftursæti stukku út um dyrnar en stúlkunni sem sat í miðjunni tókst ekki að losa bílbelti sitt í tæka tíð og sökk með jeppanum. Baldur segir að kærasti hennar hafi þá kafað niður að bílnum og í þann mund sem hún losaði beltið togaði hann í hana. Aðspurður segist Baldvin ekki hafa verið í bílbelti, hann hafi haft vit á því að losa það áður en hann ók út á vatnið. Fimmmenningunum tókst síðan að krafla sig upp úr vökinni og upp á ísinn með erfiðismunum. Tveir piltanna og stúlkan voru blaut upp fyrir haus og hinir piltarnir rennvotir. Sjálfur missti Baldvin skóna ofan í vatnið og hljóp því á sokkaleistunum. Eftir um tveggja kílómetra göngu og hlaup börðu þau upp á Bassastöðum, öll köld og blaut en stúlkan var einna verst haldin. Á Bassastöðum fengu þau aðstoð og þaðan var hringt eftir sjúkrabifreiðum. Þau fengu að fara heim af slysadeild Landspítalans eftir aðhlynningu.

Í gærmorgun var vökin sem bíllinn fór niður um ísilögð á ný. Ekkert sást til jeppans en hann er talinn vera á a.m.k. 3-4 metra dýpi. Hafravatn er dýpst 28 metrar. Að sögn Baldvins er ekki búið að ákveða hvenær reyna á að ná bílnum upp. Samkvæmt upplýsingum frá Vátryggingarfélagi Íslands bæta hvorki kaskó-trygging né svokölluð utanvegakaskó-trygging tjón af þessu tagi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert