Hlaupið í Skaftá komið að Kirkjubæjarklaustri; útlit fyrir stórt hlaup

Skaftárhlaup hafið.
Skaftárhlaup hafið. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Útlit er fyrir að Skaftárhlaupið sem nú er komið niður í byggð verði stórt, segir Snorri Zóphóníasson, sérfræðingur hjá Vatnamælingum. Þetta hlaup komi úr eystri katlinum og langt sé síðan hljóp úr honum og von verið á hlaupi um nokkurt skeið. Búast megi við að þetta hlaup verði um tvo daga að ná hámarki.

Skaftárhlaupið í fyrra kom úr vestari katlinum, en sá eystri er stærri. Snorri segir vöxt hafa byrjað í Skaftá niðri við Hringveginn um sexleytið í morgun, en hann telur að byrjað hafi að hlaupa úr katlinum snemma í gær. Samkvæmt mælum Vatnamælinga Orkustofnunar var rennslið í Eldvatni við Ása komið í tæpa 193 rúmmetra á sekúndu nú um klukkan ellefu, en Snorri segir að búast megi við að rennsli í hlaupinu fari í 1.400 til 1.500 rúmmetra. Kveðst hann þó ekki vilja fullyrða neitt um það, en þannig hafi Skaftárhlaup oft hagað sér, þótt vissulega hafi birst öll tilbrigði.

Hann segir að ekki sé talið að hlaupið farið í Hverfisfljót að þessu sinni og er sú ályktun byggð á því að breytingar hafi orðið á jöklinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka