Vöruverð hæst á Íslandi af Norðurlöndunum

Vöruverð í matvöruverslunum í Reykjavík er umtalsvert hærra en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna, en svipað og í Osló. Mestur verðmunur er á kjöti, ostum, eggjum og mjólkurvörum, öðrum en drykkjarmjólk, en minni á grænmeti og ávöxtum. Þetta kemur fram í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í matvöruverslunum í Reykjavík, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Osló og Helsinki, dagana 9. og 10. maí sl.

Vörukarfa með algengum undirstöðumatvörum er tæplega helmingi dýrari í Reykjavík en í Stokkhólmi. Karfa sem kostaði tæplega 4.800 krónur hér, kostaði ríflega 4.600 krónur í Osló, 3.100 í Helsinki og litlu minna í Kaupmannahöfn. Ódýrust var karfan í Stokkhólmi, kr. 2.488, að því er segir á vef ASÍ

Af verðmun á einstökum vörum má nefna að kíló af hefðbundnum brauðosti (15-20%) kostar að meðaltali kr. 977 í Reykjavík, kr.922 í Ósló, kr.572 í Kaupmannahöfn og kr.458 í Stokkhólmi.

Ferskar kjúklingabringur, sem kosta rúmlega 2.000 krónur kílóið í Reykjavík og kr.1. 400 í Osló, kosta rúmar 1.000 krónur í Kaupmannahöfn, kr.750 í Stokkhólmi og tæplega 900 krónur í Helsinki. Ungnautahakk reyndist dýrast í Osló, 1.423 krónur kílóið, í Reykjavík kostaði kílóið 1.038 krónur, en var ódýrast í Stokkhólmi kr. 432.

Egg eru mun dýrari hér en í hinum borgunum. Kíló af eggjum kostar hér rúmar 400 krónur, ríflega 300 krónur í Osló, 240 kr. í Kaupmannahöfn, 210 kr. í Stokkhólmi og 150 kr.í Helsinki.

Minni munur er á verði á nýmjólk. Lítri af 3-4% feitri mjólk er dýrastur í Osló, kostar rúmar 130 krónur. Lítrinn kostar 75 krónur í Reykjavík og í Kaupmannahöfn, 70 krónur í Helsinki og 65 krónur í Stokkhólmi. Verðmunur á léttmjólk er hins vegar meiri. Í Reykjavík og Helsinki er sama verð á nýmjólk og léttmjólk, en í Kaupmannahöfn kostar léttmjólkin 54 krónur, í Stokkhólmi 62 krónur og 110 krónur í Osló.

Í könnuninni er skoðað verð á undirstöðumatvörum ss. smjöri, osti, mjólk og mjólkurvörum, kjöti, brauði, grænmeti, ávöxtum og eggjum. Farið var í leiðandi matvörukeðjur á hverjum stað þar sem gera má heildarinnkaup til heimilisins. Annars vegar var farið í lágvöruverðsverslun og hins vegar í stórmarkað, þar sem vöruúrval er meira og þjónustu ss. kjötborð og bakarí var að finna í versluninni. Hér er borið saman meðalverð þessara verslanagerða í hverju landi. Í þeim tilvikum þar sem fleiri en ein tegund af tiltekinni vöru var fáanleg í versluninni, var ávallt valinn ódýrasti kosturinn sem uppfyllti sett skilyrði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert