Yfirlýsing frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni

Yfirlýsing frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs Group hf.

Samantekin ráð hinna innvígðu og innmúruðu?

Í Morgunblaðinu á morgun birtist viðtal Agnesar Bragadóttur við Jón Gerald Sullenberger. Í sem stystu máli er þar mjög frjálslega farið með staðreyndir og ósannindum dælt yfir lesendur Morgunblaðsins með stríðsfyrirsögnum. Þótt aðeins sé bent á eitt atriði, sem er unnt að sanna, þá er það rakinn þvættingur að tölvupóstum hafi skipulega verið eytt úr tölvu minni og að starfsmaður tölvufyrirtækis hafi verið við þá iðju heilan dag í september 2002. Þetta er rangt. Eigandi umrædds tölvufyrirtækis hefur mótmælt þessari ósönnu staðhæfingu og svo vill til að í skýrslu dómkvaddra matsmanna, sem fyrir liggur í “Baugsmálinu”, er kafli um þetta atriði sem gengur gegn þessum fullyrðingum Jóns Geralds.

Viðtal Morgunblaðsins við Jón Gerald Sullenberger er athyglisverður kafli í herför Styrmis Gunnarssonar og félaga, sem sumir voru nefndir á nafn í tölvupóstsamskiptum hans við Jónínu Benediktsdóttur sem birtir voru í Fréttablaðinu sl. haust. Þar kom fram, að Styrmir tók að sér að skipuleggja aðkomu lögreglu og valdamikilla manna í Sjálfstæðisflokknum að sakargiftum Jóns Geralds Sullenberger í minn garð og föður míns. Virtust þeir taka ásakanir hans opnum örmum vorið og sumarið 2002 enda höfðu þeir þá um nokkurt skeið með skipulegum hætti reynt að grafa undan okkur feðgum og fyrirtæki okkar, Baugi. Flestir minnast hótana Davíðs Oddssonar í garð fyrirtækisins í þingsölum í janúar 2002. Skósveinar hans beittu ósvífnum aðferðum við að ná undirtökum í Tryggingamiðstöðinni og Íslandsbanka skömmu síðar og setja þar áform mín og fleiri fjárfesta í uppnám. Einnig beitti hann áhrifum sínum til að stöðva framgang Baugs í erlendum fjárfestingum sínum þennan sama vetur. Skemmst er að minna atgangsins í fjölmiðlamálinu og fleiri dæmi mætti nefna.

Líkt og fram kom í tölvupóstum Styrmis og Jónínu lögðu þau á ráðin um aðkomu lögregluyfirvalda og fengu til verksins Jón Steinar Gunnlaugsson. Kjartan Gunnarsson var þarna með í ráðum og vísað var til “ónefnda mannsins”. Skyldi það vera foringinn sjálfur? Þetta lið skapaði ásökunum Jóns Geralds aukna vikt gagnvart embætti Ríkislögreglustjóra, en Haraldur Johennessen er handgenginn Styrmi og Birni Bjarnasyni, enda voru þeir um árabil nánustu samstarfsmenn föður hans, Matthíasar, á Morgunblaðinu. Án íhlutunar þessara manna hefðu menn líklega séð í gegnum lygavef Jóns Geralds, enda hefur hann aldrei haldið þræði í málinu og orðið margsaga hvað eftir annað. Eftir sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars sl. hefur þessum hópi orðið ljóst, að það þyrfti að hressa upp á trúverðugleika Jóns Geralds Sullenberger. Hann beið hnekki í niðurstöðum dómsins sem ekki vildi byggja á framburði hans.

Björn Bjarnason boðaði á heimasíðu sinni 15. mars að þótt sýknað hefði verið í málinu gegn mér og öðrum, þá myndi það halda áfram. Vísaði hann til þess að þó að Júlíus Sesar hafi verið myrtur þá hafi Rómaveldi lifað. Baugsmálinu var framhaldið og tveimur dögum síðar ritar ráðuneyti Björns dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna bréf með beiðni um aðstoð þarlendrar lögreglu við yfirheyrslur tilgreindra einstaklinga í Flórída. Í bréfinu er mjög hallað réttu máli gagnvart mér og öðrum sakborningum í Baugsmálinu. Þarna hefur gremja Björns verið skynsemi hans sterkari og hann freistast til að hafa bein afskipti af málinu, sem hann þykist þó aldrei hafa gert. Styrmir beitir síðan Morgunblaðinu með eftirgreindum hætti til að reyna að bæta ímynd Jóns Geralds Sullenberger eftir útreiðina sem hann hefur fengið í dómssölum:

Í fyrsta lagi hafa Staksteinar hvað eftir annað vegið að verjendum málsins og stutt mál ákæruvaldsins. Í eitt skiptið var því fagnað eftir að nýi saksóknarinn hefði unnið kærumál í Hæstarétti, að hugsanlega hefði “stríðsgæfan” loks snúist á sveif með honum!

Í öðru lagi hefur Morgunblaðið hallað verulega réttu máli í “verðkönnunum” og reynt að gera hlut Bónus þar verri en hann er í raun gagnvart samkeppnisaðilum. Blaðamaðurinn sem þar heldur í taumana mun vera eiginkona Páls Vilhjálmssonar, sem reglulega kemur fram með rætin og ósönn skrif sín í minn garð í Morgunblaðinu, nú síðast í gær, föstudag. Verðkannanir í Morgunblaðinu voru hluti af hjali Jónínu og Styrmis skv. tölvupóstunum. Taldi hún mikilvægt að verðkannanir sýndu hlut Bónuss verri en samkeppnisaðila.

Í þriðja lagi hefur Morgunblaðið í fréttum sínum augljóslega dregið taum embættis Ríkislögreglustjóra. Þangað hefur embættið lekið upplýsingum, nú síðast í fyrradag þegar rangt var farið með tölur úr skattrannsókninni, sem ég mátti sæta og lauk með endurálagningu nú í vetur. Endurálagningin er nú til meðferðar í yfirskattanefnd. Samstarf Morgunblaðsins og Ríkislögreglustjóra birtist einnig í þeirri ófrægingarherferð sem embættið hefur markvisst stundað með “leka” um framgang rannsóknarinnar og nú síðast með röngum upplýsingum í Morgunblaðinu um skattamál mín. Svo virðist vera sem boðunarbréfið hafi verið sent út daginn áður en réttarhöld áttu að fara fram um frávísun málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur og síðan hefur átt að “leka” því í Morgunblaðið. Þannig hefur átt að draga upp dökka og villandi mynd af mér í þann mund sem dómari tæki málið til úrskurðar. Morgunblaðið og hinir innvígðu vinir Styrmis hjá Ríkislögreglustjóra óttast auðvitað að málinu verði vísað frá öðru sinni vegna slælegra vinnubragða ákæruvaldsins og lögreglunnar.

Í fjórða lagi er síðan reynt að fegra ímynd Jóns Geralds Sullenberger með löngu viðtali í Morgunblaðinu. Þetta kemur einmitt í kjölfar rangra frétta af skattmáli mínu og tilgangurinn er augljóslega að treysta trúverðugleika hans. Þetta segi ég vegna þess að Agnes Bragadóttir hafði samband við mig fyrir nokkru og spurði hvort ég teldi að deilan um hvort leiða ætti dómstjóra og hinn nýja saksóknara sem vitni, myndi leiða til þess að málflutningi um frávísun yrði frestað. Hafði Styrmir greinilega í hyggju að birta viðtal hennar við Jón Gerald í tengslum við þau réttarhöld.

Illt er að etja kappi við slíkan hóp en sem betur fer er veldi þeirra á fallandi fæti.

London, 24. júní 2006.

Jón Ásgeir Jóhannesson

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka