Mengun vegna olíulekans í Ljósavatnsskarði í morgun er sennilega ekki jafn mikil og óttast var í fyrstu að sögn Valdimars Brynjólfssonar, fulltrúi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Valdimar var á leið á slysstað er blaðamaður mbl.is náði tali af honum um hádegi en kvaðst ekki komast á staðinn vegna umferðarteppu. Hann sagði einhverja hreyfingu þó vera á umferðinni og að honum skildist að bílum væri nú hleypt eftir túnslóða við bæinn Kambsstaði.
Valdimar sagði að eftir þeim upplýsingum sem hann hefði undir höndum væru umhverfisáhrif slyssins ekki mikil. Bensín væri aðallega á veginum og á vegöxlinni. Þá hefði gildra verið sett í læk við veginn og það hafi átt stóran þátt í því að hefta úrbreiðslu mengunarinnar. Valdimar sagði jafnframt að það hefði verið lán í óláni að um bensín skyldi vera að ræða þar sem það gufi fljótt upp og því séu mengunaráhrif þess mun minni en annars eldsneytis.