Harður árekstur varð um kl. 19 í kvöld á þjóðvegi 1 við hringtorgið í Hveragerði þegar sendibíll ók aftan á jeppa með hjólhýsi. Farþegi í jeppanum var fluttur til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi en hann var talinn lítið meiddur.
Hjólhýsið er mikið skemmt og sendibíllinn er óökufær. Slökkviliðið í Hveragerði var kallað á vettvang til að hreinsa upp olíu og urðu nokkrar umferðartafir í kjölfar óhappsins. Mikil umferð var austur fyrir fjall þegar óhappið varð.