Endurskoðað áhættumat vegna Kárahnjúkavirkjunar verður kynnt á stjórnarfundi Landsvirkjunar á mánudag. Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði á blaðamannafundi í dag, að hátt á annað hundrað rannsóknarskýrslur væru þegar aðgengilegar um virkjunina og skýrsla um endurskoðað áhættumat verði gerð opinber.
Friðrik sagði, að mat á áhættu hefði legið fyrir þegar umhverfismat var kynnt árið 2001 eins og opinberar kröfur gerðu ráð fyrir. Í apríl 2005 hefði verið ákveðið að endurskoða matið.
Friðrik sagði að áhættumatið fjallaði um hugsanlega hættuatburði á svæðinu og áhrif þeirra á stíflumannvirkin ásamt afleiðingum mögulegra flóða vegna stíflurofs. Í endurskoðaðri skýrslu væri lögð sérstök áhersla lögð á jarðskjálfta og jarðskorpuhreyfingar. Sagði Friðrik, að sú skýrsla yrði gerð opinber eins og aðrar skýrslur um mannvirkin og í kjölfarið verði gefin út viðbragðsáætlun Landsvirkjunar, sem byggir á áhættumatinu og útreikningum á stærð flóða vegna stíflurofs.
Búið er að byggja yfir 95% af Kárahnjúkastíflu og í næsta mánuði verður byrjað að fylla Hálslón. Hópur erlendra sérfræðinga hefur að undanförnu skoðað framkvæmdirnar og voru þeir á blaðamannafundinum þar sem bygging stíflunnar var kynnt í dag.