Sólveig Pétursdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og forseti Alþingis, tilkynnti á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sem haldinn var síðdegis í dag, að hún hafi ekki í hyggju að bjóða fram í þingkosningunum í vor og tæki því ekki þátt í prófkjöri flokksins. Sólveig hefur gegnt þingmennsku frá árinu 1991, hún var dóms- og kirkjumálaráðherra á árunum 1999-2003 og hefur verið forseti Alþingis frá árinu 2005.
Sólveig hefur sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:
Á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sem var haldinn síðdegis í dag til að taka ákvörðun um prófkjör í Reykjavíkurkjördæmum fyrir alþingiskosningarnar í vor, tilkynnti ég að ég yrði ekki í framboði á lista Sjálfstæðisflokksins við kosningarnar og tæki því ekki þátt í prófkjörinu.
Ég hef gegnt þingmennsku fyrir Reykvíkinga í nærfellt tuttugu ár, varaþingmaður 1987-1991 og tók fast sæti á Alþing í febrúar 1991. Ég hef á þingferli mínum verið formaður þingnefnda, meðal annars allsherjarnefndar 1991-1999 og utanríkismálanefndar 2003-2005, var dóms- og kirkjumálaráðherra í fjögur ár, 1999-2003, og er nú forseti Alþingis. Mér hafa því verið falin á þingferli mínum flest þau verkefni sem stjórnmálamaður sækist eftir til að koma stefnumálum sínum í höfn.
Ég gerði nánari grein fyrir ákvörðun minni í ræðu sem ég flutti á fundinum og fylgir hún með tilkynningu þessari, ásamt yfirliti um störf mín og hagi.
Ég hef síðustu vikur fengið hvatningu og stuðning frá mörgum sjálfstæðismönnum til þátttöku í prófkjörinu og til framboðs í vor. Ég hef hins vegar tekið þá ákvörðun að hætta opinberum stjórnmálaafskiptum eftir næstu kosningar. Ég stóð frammi fyrir því nú hvort ég ætti að helga líf mitt áfram opinberum störfum, lifa lífi stjórnmálamannsins enn um sinn eða snúa mér að öðrum viðfangsefnum. Í stjórnmálum verður að vera hæfileg endurnýjun en ekki stöðnun. Það er liðin tíð í þessu þjóðfélagi að stjórnmálastörf, þingmennska til dæmis, verði ævistarf nokkurs manns. Það er hins vegar mikilvægt að finna rétta tímann til að hætta, fá að velja hann sjálf.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt verið breiður flokkur þar sem stétt hefur staðið með stétt. Þar hefur verið rúm fyrir bæði karla og konur. Ég hvet konur til að fylkja sér áfram um Sjálfstæðisflokkinn og hvet þær til að gefa kost á sér í prófkjörinu.
Ég skora á alla flokksmenn að taka þátt í prófkjörinu og vanda val sitt. Sérhver frambjóðandi og sérhver kjósandi þarf að hugsa um heildina, breiddina, ekkert síður en um sjálfan sig eða sinn mann.
Ég er sannfærð um að í sameiningu munu sjálfstæðismenn, undir styrkri forystu formannsins, Geirs H. Haarde, leiða Sjálfstæðisflokkinn enn og aftur til sigur í kosningunum í vor.