Á síðustu vikum og mánuðum hefur lögreglan í Reykjavík klippt skrásetningarnúmer af ógrynni ökutækja. Þetta eru ýmist ökutæki sem uppfylla ekki ákvæði um skoðun eða eru ótryggð. Í gær voru skrásetningarnúmer klippt af tíu ökutækjum sökum þess að eigendur þeirra höfðu ekki staðið skil á vátryggingu. Lögreglan mun halda eftirlitinu áfram og hvetur því ökumenn til að passa upp á þetta.
Jafnframt hugar lögreglan að ljósabúnaði ökutækja en það er afar mikilvægt að hann sé í góðu lagi. Nú er skammdegið skollið á og því er birtan ekki jafn lengi til staðar og var í sumar. Í reglum um ljósanotkun segir m.a.: Við akstur vélknúins ökutækis skulu lögboðin ljós eða önnur viðurkennd ökuljós jafnan vera tendruð. Lögreglan biður því ökumenn að ganga úr skugga um að ljósin séu í fullkomnu lagi.