Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í leit á Brekknaheiði á Austurlandi seinnipartinn í dag. Um var að ræða stúlku sem var í leit að fé á heiðinni en farið var í göngur þar í dag. Stúlkan fannst heil á húfi um hálfsjö leytið í kvöld.
Fyrr í dag höfðu björgunarsveitir einnig verið kallaðar út vegna tveggja gangnamanna á sömu heiði en þeir fundust heilir á húfi fljótlega eftir að útkall barst. Björgunarsveitir fyrir austan fjall fóru um kvöldmatarleytið upp Ingólfsfjall þar sem maður var í sjálfheldu. Maðurinn var fastur ofarlega í fjallinu og var hætta talin á að hann gæti fallið niður. Björgun mannsins gekk vel og er hann ómeiddur.