Félags um verndun hálendis Austurlands samþykkir ályktun

Aðalfundur Félags um verndun hálendis Austurlands sem haldinn var á Ekkjufelli 9. október 2006 samþykkti einróma eftirfarandi ályktun:

„Félag um verndun hálendis Austurlands fagnar þeirri samstöðu sem myndast hefur með þjóðinni um nauðsyn þess að vernda hálendi Íslands. Félagið lýsir stuðningi við hugmyndir sem fram hafa komið þess efnis að ákvarðanir um frekari virkjun á hálendinu verði ekki teknar áður en að fyrst hafi farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Komið hefur í ljós að þrátt fyrir mikinn meirihlutastuðning við afgreiðslu laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal er almenningur mjög á móti Kárahnjúkavirkjun.

Félag um verndun hálendis Austurlands krefst þess að öllum virkjunaráformum verði slegið á frest þar til rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hefur verið lokið, árið 2009 eða 2010.

Félag um verndun hálendis Austurlands dregur mjög í efa trúverðugleika almennra atkvæðagreiðslna í einstökum sveitarfélögum um það hvort stækka beri eða reisa eigi nýtt álver innan þeirra. Slíkar ákvarðanir kalla á orkuöflun sem oftar en ekki veldur varanlegum skaða á náttúruverðmætum sem öll íslenska þjóðin á tilkall til en ekki bara Hafnfirðingar, Húsvíkingar eða Skagfirðingar."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert