„Engin efni eru hins vegar til þess að kenna þessa veikburða sjálfsvörn ríkisins við einn stjórnmálaflokk öðrum fremur og engar heimildir hafa verið dregnar fram því til sönnunar að öryggisþjónustumenn hafi beitt sér í þágu nokkurs stjórnmálaflokks,“ skrifar Þór Whitehead sagnfræðingur í grein í Morgunblaðinu á sunnudag undir yfirskriftinni „Hver vissi hvað og hve nær?“
Tilefni greinarinnar er umræða um það hvort á Íslandi hafi verið rekin „leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins“. Í greininni rekur Þór afskipti forustumanna í hinum svokölluðu lýðræðisflokkum, Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, af skipulagi og umfangi öryggismála á tímum heimsstyrjaldarinnar síðari og kalda stríðsins.
„En hafi ,,leyniþjónustan“, eins og menn kjósa að kalla öryggisþjónustu lögreglunnar, starfað á vegum Sjálfstæðisflokksins 1948–1985 vegna þess að yfirstjórnendur hennar voru skipaðir í embætti af þeim flokki, mætti með sömu ,,rökum“ segja að hún hafi starfað á vegum Framsóknarflokksins 1939–1947, og 1985–1997,“ skrifar Þór Whitehead. „Hvort tveggja er þó jafn fráleitt.“