VONSKUVEÐUR og ófærð var á Norðurlandi í gær, norðanbálviðri geisaði daglangt og spillti færð. Björgunarsveitarmenn frá Súlum voru kallaðir út til að aðstoða ökumenn í vandræðum í Víkurskarði síðdegis í gær og var veginum þar lokað vegna ófærðar. Einnig var veginum milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur lokað og Vegagerðin varaði við stórhríð á vegum á Eyjafjarðarsvæðinu. Að sögn lögreglunnar á Akureyri var blindbylur beggja vegna Eyjafjarðar í gærkvöldi og tvö minniháttar umferðaróhöpp urðu í bænum.
Rúmlega 40 metrar á sekúndu
Á Siglufirði var ófærð í bænum í gærkvöldi og mjög fáir á ferli. Þá var gífurlega hvasst á Blönduósi og fór norðanstormurinn í rúmlega 40 metra á sekúndu í hviðum, sem jafngildir 144 km á klst. en vindur hélst stöðugur um 30 metrar á sekúndu. Ofsaveður telst þegar vindur fer yfir 30 metra á sekúndu, eða sem samsvarar 108 km á klst. Björgunarsveitir voru sendar til að hefta fjúkandi þakplötur í bænum og á Skagaströnd skemmdist trébátur í höfninni þegar hann fauk utan í plastbát og voru björgunarsveitir einnig kvaddar á vettvang. Lítil ofankoma var þó á Blönduósi og nokkuð bjart yfir þrátt fyrir storminn. Nokkur vandræði voru í umferð sunnanlands vegna veðurs og varð þriggja bíla árekstur á Hellisheiði og slösuðut tveir, þó ekki lífshættulega.
Þá valt sendibifreið á Vesturlandsvegi við bæinn Fiskilæk í gærmorgun og slapp ökumaður með minniháttar áverka.
Ennfremur varð bílvelta við Litlu kaffistofuna síðdegis en meiðsl á fólki voru minniháttar.
Veðurstofan spáir norðaustan 13-18 metrum á sekúndu í dag, þriðjudag, éljum fyrir norðan og austan, en léttir til suðvestanlands.