Lífleg umræða fór fram í upphafi þingfundar á Alþingi í dag um flokksstjórnarfundarræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar. Þingmönnum stjórnarflokkanna þótti sú yfirlýsing Ingibjargar einkum merkileg, að vandi Samfylkingarinnar lægi í því, að kjósendur þyrðu ekki að treysta þingflokknum. Landnámshænsn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum blönduðust einnig í umræðuna og kváðu oft við hlátrasköll í þingsalnum þegar þingmenn skylmdust með orðum.
Guðjón Ólafur Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hóf umræðuna og sagði m.a. að Ingibjörg Sólrún hefði niðurlægt þingflokk sinn. Og það væru einkennilegar kveðjur, sem Margrét Frímannsdóttir og Jóhann Ársælsson og Rannveig Guðmundsdóttir hefðu fengið með þessum hætti því skilaboðin hefðu verið skýr frá formanninum: Kjósendur treysta ykkur ekki.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði ánægjulegt, að Guðjón Ólafur skyldi taka upp þykkjuna fyrir þingmenn Samfylkingar og vildi slá um þá skjaldborg í þingsal. Ástæðan fyrir upphlaupi hans væri hins vegar sú, að hann vissi, að þingflokkur Samfylkingarinnar væri öflugur og til alls líklegur á næstu mánuðum. Framsóknarflokkurinn væri hins vegar að tapa miðjunni þangað sem Samfylkingin sækti m.a. fylgi sitt. Hún sagði að það væri ráð fyrir Framsóknarflokkinn, að vera einlægur og heiðarlegur og skoða sig gagnrýnið og þá væri ef til vill einhver von á afturbata. En sjálfumgleði væri ekki til árangurs þegar flokkar eru með pilsnermörk í fylgi og þyrftu að sækja fram.
Eftir þessi orðaskipti kom Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG í ræðustól og vildi ræða um förgun 56 hænsnfugla í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, sem fór fram að fyrirskipun landbúnaðarráðherra. Sagði Kolbrún að áhöld hefðu verið um hversu nauðsynlegar þessar aðgerðir hafi verið og þær hefðu einnig verið ákveðnar án þess að hafa samband við ræktunarfélag, sem væri að rækta sjaldgæfan stofn landnámshænsna. Spurði hún landbúnaðaráðherra hvers vegna ekki hefði verið haft samráð við Félag eigenda- og ræktenda landnámshænsna.
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist frekar vilja ræða um förgun annarra fugla í samfélaginu, þeirra sem sætu í þingflokki Samfylkingarinnar. Sagði hann formann flokksins hafa slegið heilan þingflokk af og lýst því yfir að kjósendur þyrðu ekki að treysta honum. Þetta væri blaut tuska framan í andlit viðkomandi þingmanna og söguleg yfirlýsing frá formanni stjórnmálaflokks, sem vildi láta taka sig alvarlega.
Hvað á að gera í málinu? spurði Sigurður Kári, og sagði að lýðræðissinnar gerðu sér grein fyrir mikilvægi stjórnarandstöðu fyrir lýðræðisumræðuna. Síðan kæmi formaður Samfylkingarinnar, og segði á laugardegi að þingflokkurinn væri uppfullur af handónýtum þingmönnum en segði á þriðjudegi að þingflokkurinn væri öflugur.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingar, fannst lítið til koma hvaða erindi ungu karlarnir í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum ættu í ræðustól Alþingi á þriðjudagsmorgni til að tala um ræðu formanns Samfylkingarinnar. Taldi hún helst að málið hefði orðið til í umræðum þeirra yfir expressókaffibolla Sagði Þórunn, að þingmennirnir ungu hefðu ekkert fram að færa fyrir kjósendur þessa lands um pólitík og hugsjónir heldur aðeins sjálfumgleði sína og andvaraleysi því þeir væru í öðrum leik, karlakjaftaleiknum.
Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar, þakkaði hlý orð og samúðarkveðjur í garð þingmanna flokksins en sagðist verða að hryggja menn um að fréttir um meinta förgun þeirra í þingflokki Samfylkingarinnar væru ýktar. Taldi hann tímanum á Alþingi betur varið í að yfirheyra hinn meinta morðingja 56 landnámshænsna en um ræðu formanns Samfylkingarinnar.
Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, sagði Ingibjörgu Sólrúnu hafa sýnt af sér hreinskilni, sem væri sjaldgæf í stjórnmálum. Nú væri það brennt á enni og brjóst Samfylkingarmanna, að þjóðin treysti þeim ekki, enda væri flokkurinn aðeins regnhlíf kommanna, kratanna og kvennalistans. „Svo sný ég mér að hinum fuglunum sem voru miklu mikilvægari," sagði Guðni og benti á að mótefnamælingar hefðu bent til þess að fuglaflensuveiran kynni að vera til staðar í fuglum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Sem betur fer hefði svo ekki verið en það hefði verið öryggisatriði að fella þessa fugla og hreinsa garðinn. „Síðan koma nýir fuglar með hækkandi sól. það verða fuglar sem geta unnið kosningar þótt Samfylkingin geri það ekki," sagði Guðni.