Þorgerður K. Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, kveðst sátt við að önnur umræða um Ríkisútvarpið ohf. klárist fyrir helgi, þótt ekki náist að afgreiða frumvarpið fyrir jól. Samkomulag náðist í nótt milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að önnur umræða um frumvarp um Ríkisútvarpið yrði kláruð í dag eða nótt. Að óbreyttu stefndi í miklar umræður um Ríkisútvarpið.
„Ég er sátt við niðurstöðuna. Ég er sátt við það að við klárum aðra umræðu, en í henni er alltaf mikill þungi. Síðan byrjum við strax eftir áramót, fyrr heldur en áður var gert ráð fyrir, til að klára Ríkisútvarpið." Stefnt er að því að þing komi saman hinn 15. janúar nk.
Spurð hvort þessi málsmeðferð breyti ekki einhverju fyrir Ríkisútvarpið sjálft segir ráðherra: „Nei, það munar ekki þessum mánuði eða tveimur," segir hún. Á hinn bóginn sé best að óvissu um Ríkisútvarpið verði eytt sem fyrst.