Árekstur á Eyrarbakkavegi í morgun

Árekstur varð á Eyrarbakkavegi rétt fyrir klukkan 8 í morgun. Ökumaður fólksbifreiðar var á leið suður Eyrarbakkaveg og rétt eftir að hafa mætt snjóruðningstæki missti ökumaður fólksbíls stjórn á bíl sínum í þunnu krapalagi sem var á veginum. Við þetta snérist fólksbíllinn í hálfan hring og lenti yfir á hinum vegarhelmingnum.

Pallbíll, sem var á leið norður veginn lenti aftan á fólksbílnum. Ökumaður fólksbílsins kvartaði um minni háttar verki og var fluttur til skoðunar á heilsugæslustöðina á Selfossi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi.

Í dagbók lögreglu kemur fram að á nákvæmlega sama stað á Eyrarbakkavegi varð alvarlegt umferðarslys síðdegis síðastliðinn þriðjudag. Kona sem var ein á ferð á leið suður veginn missti bifreiðina útaf veginum með þeim afleiðingum að hún valt og hafnaði á hjólunum í skurði. Beita þurfti klippum til að losa konuna úr bifreiðinni. Hún var flutt mikið slösuð á slysadeild Landspítala þaðan sem hún var flutt á gjörgæsludeild. Ekki er vitað með vissu um ástæðu þess að bifreiðin fór útaf veginum en mikil hálka var þegar slysið átti sér stað.

Sextán ára piltur á Laugarvatni tók bifreið foreldri síns ófrjálsri hendi í vikunni og ók henni um götur Laugarvatns. Ökuferðin endaði á rafmagnskassa. Við áreksturinn fór rafmagn af nokkrum nærliggjandi húsum.

Nítján ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í vikunni af lögreglunni á Selfossi, tveir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna og einn fyrir að aka undir áhrifum lyfja.

Lögregla lét fjarlægja hund úr húsgarði á Selfossi þar sem hann hafði gelt í langan tíma. Eigandi hundsins var ekki heima við en hafði skilið hundinn eftir bundinn í garðinum heima hjá sér.

Þar sem ekki tókst að hafa upp á eiganda hundsins og greinilegt að dýrinu leið ekki vel við þessar aðstæður var hundaeftilitsmaður fenginn til að fjarlægja hundinn og koma honum í hús. Eigandi hundsins gaf sig síðar fram við lögreglu næsta dag og lét í ljósi mikla óánægju með þessar aðgerðir. Manninum var bent á þær reglur sem hann hefði undirgengist er hann fékk leyfi til að halda hundinn. Þar er meðal annars kveðið á um að hundar mættu ekki valda öðrum óþægindum eða ónæði sem hundurinn sannarlega gerði í umrætt sinn.

Nokkuð hefur verið um rúðubrot í Hveragerði undanfarnar vikur. Lögregla hefur unnið úr ábendingum sem hafa borist. Í ljós hefur komið að nokkrir unglingar hafa staðið að mörgum þessara eignaskemmda. Málið er enn í rannsókn og er unnið með barnaverndarnefnd og fleiri aðilum til að ná utan um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka