Sævar segir jaðra við að hann skilji ekki út á hvað útgerð á Íslandi gengur í dag en t.a.m. virðist sem flutningurinn sé ekki vegna þess að aflaheimildir vanti. „Það er bara verið að setja skipið í önnur verkefni og því kann að vera að útgerðin þurfi annað skip til að ná öllum veiðiheimildum á næsta fiskveiðiári. Ég veit allavega ekki hvernig HB Grandi ætlar að ná aflaheimildunum í kjölfar þess að þetta afkastamikla skip hverfur úr flotanum.“ Hann segist sjá mikið eftir Engeynni enda bar hún af í aflaverðmætum á sl. ári með 1,5 milljarða króna.
Pirringur innan SSÍ
HB Grandi mun stofna dótturfyrirtækið Atlantic Pelagic B.V. í Hollandi og það fyrirtæki kaupa Engeyna. Áhöfn skipsins hefur þegar verið sagt upp störfum og í Morgunblaðinu í gær sagði skipstjórinn, Þórður Magnússon, að illa væri komið fyrir íslenskum sjómönnum. „Ég er hjartanlega sammála Þórði. Það er óviðunandi að það skuli vera hægt að henda þessu til og frá eftir þörfum eigendanna og það jaðrar við vítaverð vinnubrögð að bjóða mönnum upp á svona óvissu sem virðist ríkja,“ segir Sævar og bætir við að verulegur pirringur sé meðal félagsmanna sjómannasambandsins. „Þarna eru menn sem eru mjög hæfir og hafa verið að fara úr plássum, ágætum og góðum plássum, til að fara á flaggskipið og svo með geðþóttaákvörðun, liggur mér við að segja, eru þeir orðnir atvinnulausir. Það er visst sjokk.“
Sævar efast þó ekki um að áhöfnin fái önnur störf jafnvel þó að hart sé í ári hjá sjómönnum. Á sl. ári hafi mönnum gengið ágætlega að fá vinnu og byrjun þessa árs líti vel út.