Bæjarstjórn Kópavogs seldi í gær Gustssvæðið fyrir 6,5 milljarða eftir að hafa keypt hesthúsasvæðið fyrir rúmu hálfu ári á rúma 3 milljarða. Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnarinnar telur að hagnaðurinn af sölunni komi til með að nema um 1,5 milljarði þegar allt hefur verið tekið með í reikninginn.
Kópavogsbær greiddi hestamönnum einnig hluta þess kostnaðar sem fylgir því að flytja hesthúsahverfið og gerð nýrra reiðstíga og annað og nemur sá kostnaður tæpum 2 milljörðum.
Fyrirtækið Smáratorg keypti stóran hluta gamla Gustssvæðisins en eigenda þess er Jákub Jacobsen og hyggst hann reisa skrifstofuturn og eitthvað af verslunarhúsnæði á staðnum.
Ármann sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að hann væri ánægður með söluna. „Þetta er í góðu samræmi við það sem við reiknuðum með og við erum ánægðir með hvað þetta gekk hratt fyrir sig. Þetta skrifstofuhúsnæði kemur til með að nota gatnakerfið á öðrum tíma en verslanirnar og stæðin við Smáralind nýtast því allan daginn og umferðarstraumurinn verður þá í báðar áttir á annatímum," sagði Ármann að lokum.