Gera sér fíkn að féþúfu

„Við borgum - þú spilar, er auglýst í rúllettuspilum hjá Betsson.com," sagði Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, í utandagskrárumræðum um auglýsingar um fjárhættuspil á Alþingi í gær. Ögmundur vakti athygli á starfsemi vefsíðunnar www.betsson.com, sem er meðal annarra tungumála á íslensku, en þar er hægt veðja á íþróttaleiki, heimsækja spilavíti og spila póker upp á peninga.

Ögmundur sagði að hæglega mætti snúa áðurnefndri auglýsingu við því það væru spilafíklarnir sem greiddu gróða Betsson sem aftur gerði sér sjúklega spilafíkn fólks að féþúfu.

Hann gagnrýndi jafnframt útbreiðslu spilakassa og sagðist telja mögulegt að stemma stigu við fjárhættustarfsemi á Netinu. „Ég tel að við eigum að höfða til fyrirtækja, ekki bara um lagalegar skyldur heldur einnig um siðferðilega ábyrgð," sagði Ögmundur og spurði dómsmálaráðherra hvort kæmi til greina að skipa nefnd með fulltrúum frá Samtökum áhugafólks um spilafíkn og frá bönkum og kreditfyrirtækjum til að setja reglur til að stemma stigu við ólöglegri starfsemi á Netinu.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði að 29. mars sl. hefði dómsmálaráðuneytið ritað bréf til lögreglustjórans í Reykjavík þar sem óskað var eftir því að starfsemi betsson.net yrði rannsökuð, m.a. þar sem vefsíðan hefði ekki leyfi til happdrættisstarfsemi hér á landi en hefði engu að síður auglýst starfsemi sína á öðrum miðlum, s.s. á visir.is og fotbolti.net. „Ég tel að 11. grein happdrættislaganna banni slíkar auglýsingar," sagði Björn og áréttaði að verið væri að vinna að alþjóðlegu samstarfi varðandi þessi mál, enda erfitt að takast á við starfsemi á Netinu nema með alþjóðlegum reglum.

Björn sagði einnig að mikið raunsæi byggi á bak við ákvarðanir um hvaða félög gætu haldið úti rekstri spilakassa og slíkri starfsemi. Það væri betra að starfsemin væri í landinu og að ágóðinn rynni til stofnana á borð við Háskóla Íslands og Rauða krossinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert