Ný bensínstöð ESSO opnuð við Hringbraut

Verið að leggja síðustu hönd á ESSO-stöðina í gær.
Verið að leggja síðustu hönd á ESSO-stöðina í gær.

Ný bensínstöð ESSO verður opnuð við Hringbraut í Reykjavík í dag klukkan 10. Stöðin verður opin allan sólarhringinn, árið um kring, og býður upp á vöruúrval undir merkjum Nestis. Þá verða veitingastaðirnir Subway og Serrano á staðnum auk Kaffitárs. Stöðin er rétt rúmir 500 fermetrar að stærð og svipar til stöðva ESSO við Borgartún og Ártúnshöfða.

Fram kemur í tilkynningu, að vegna nálægðar við viðkvæm svæði lúti frágangur stöðvarinnar ströngustu umhverfisskilyrðum sem gerð hafi verið um slíkan rekstur á landinu til þessa. Allir elsneytistankar séu þannig með tvöföldu byrði og með vöktunarbúnaði og undirþrýstingsbúnaði komið fyrir í hólfi milli tanka. Þá séu allar eldsneytisleiðslur tvöfaldar og úr efni sem tærist ekki. Íslenskir aðalverktakar önnuðust byggingu stöðvarinnar ásamt Suðurverki og undirverktökum.

Í tilefni opnunarinnar er boðið til hátíðar á laugardaginn, sem hefst klukkan 10. Alla helgina verður boðið upp á frítt kaffi og bakkelsi og börnin fá blöðrur. Viðskiptavinir geta einnig átt von á óvæntum glaðning úr Safnkortspotti ESSO.

Nýja þjónustustöðin við Hringbraut verður 17. stöð ESSO á höfuðborgarsvæðinu en félagið rekur yfir 100 stöðvar víðsvegar um land.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka